Nældu þér í eintak af Göngubók UMFÍ
Nældu þér í eintak af Göngubók UMFÍ
Göngubók UMFÍ 2023 er komin út. Í bókinni eru lýsingar á 277 stuttum gönguleiðum fyrir jafnt stutta sem langa fætur, 32 léttar fjallgönguleiðir fyrir alla fjölskylduna og ítarlegar lýsingar á 20 gönguleiðum. Í bókinni er semsagt margt fyrir alla.
Göngubók UMFÍ hefur síðustu ár verið unnin í góðu samstarfi við göngugarpinn Einar Skúlason. Fáir hafa stiklað um jafn marga stokka og steina og hann. Einar stýrir gönguhópum víða um land og heldur líka úti Facebook-síðunni Veseni og vergangi, sem er með þúsundir fylgjenda á Facebook.
Það sem mestu skiptir er að Einar er höfundur smáforritsins Wapp, sem geymir mikið safn fjölbreyttra GPS-leiðarlýsinga um allt Ísland. Í Wappinu eru jafnframt ljósmyndir og teikningar af gönguleiðum auk upplýsinga um árstíðabundinn aðgang, bílastæði og almenningssalerni, og ef ástæða er til að vara við hættum eða kynna önnur varúðarsjónarmið á leiðunum er það gert.
Vel er hægt að mæla með Wappinu fyrir þau sem hafa gaman af gönguferðum. Við mælum með því við göngugarpa, sem vilja fræðast betur um ákveðnar slóðir og rata betur um stikaða stíga, að opna Wappið og finna þá leið sem ætlunin er að ganga.
Nú er verið að dreifa Göngubók UMFÍ um allt land. Þú getur nálgast hana í sundlaugum, íþróttahúsum og helstu viðkomustöðum og nælt þér í ókeypis eintak.
Þú getur líka smellt á hlekkinn hér að neðan og gengið með bókina í símanum.
Reimum nú á okkur skóna og höldum af stað út í náttúruna.
Góða ferð!