Næstum 700 manns á ráðstefnu um afreksmál
„Við getum ekki öll orðið afreksfólk í íþróttum. En við hin sem njótum þess að hreyfa okkur eftir bestu getu njótum þess að horfa á þá sem skara fram úr,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í opnunarávarpi sem hann flutti á ráðstefnunni Vinnum gullið – ný stefna í afreksíþróttum á Íslandi, sem haldin var í gær.
Á ráðstefnunni voru kynnt áform um eflingu afreksíþróttastarfs á Íslandi, ýmsar leiðir að því hvernig bæta megi fyrirkomulag afreksíþróttastarfsins og hvernig styðja megi betur við afreksíþróttafólk. Bætt umgjörð kallar einmitt á aðkomu margra ólíkra þátta og félaga, svo sem íþróttasambands,- héraða og íþrótta- og ungmennafélaga, fræðasamfélagsins, þjálfara, íþróttafólks og foreldra iðkenda, sem verja margir löngum tíma og háum fjárhæðum í að styðja við íþróttaiðkun barna sinna.
Að ráðstefnunni Vinnum gullið stóðu Mennta- og barnamálaráðuneytið, í samstarfi við ÍSÍ, UMFÍ og Samband íslenskra sveitarfélaga. Til stóð að halda ráðstefnuna á Grand Hótel við Gullteig. Aðsóknin var svo góð að nauðsynlegt var að færa hana í Silfurberg í Hörpu. Ráðstefnugestir voru rúmlega 600 talsins, þar af rúmlega 400 á staðnum og 200 sem fylgdumst með beinni útsendingu á streymi.
Myndir frá ráðstefnunni má sjá hér
Hugum að lýðheilsu
Í ávarpi sínu sagði Guðni áfram, að afreksfólk í íþróttum geti eflt heilbrigða ættjarðarást þjóða og ríkja. En um leið verði að varast að tengja öfgafulla þjóðernishyggju við drengilega keppni. Hann sagði mikilvægt að leggja áherslu á hvort tveggja, lýðheilsu og almenna hreyfingu auk þess að styðja við það íþróttafólk sem skarar fram úr.
Þátttakendur á ráðstefnunni unnu nokkur verkefni saman í hópum og komu með fjölmargar tillögur sem starfshópur á vegum mennta- og barnamálaráðherra mun vinna áfram.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, sagði í ávarpi sem hann hélt á ráðstefnunni það vera markmið ríkisstjórnarinnar að stíga af krafti inn í málið og bæta stuðningsumhverfis afreksíþróttafólks, bæði hvað varði umgjörð og aðbúnað.
Afreksmálin
Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri ÍSÍ, kynnti á ráðstefnunni með kröftugum hætti leið í afreksmálum sem felur í sér samstarf skóla, sveitarfélag, framhaldsskóla, íþróttafélaga og fleiri stofnana samfélagsins.
Guðmunda Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Akraness, sem líka situr í starfshópi mennta- og barnamálaráðuneytis með Vésteini og situr auk þess í stjórn UMFÍ, lýsti hugmyndum um starfsstöðvar og nýjungar í afreksmálum. Á eftir henni steig Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds – Bílaleigu Akureyrar, á svið og fór yfir stuðning atvinnulífsins við afreksíþróttirnar og lýsti því m.a. hvernig markaðssetning og stuðningu við íþróttir hefur styrkt vörumerki bílaleigunnar.
Á meðal annarra sem fluttu erindi voru Björgvin Páll Gústafsson, landsliðsmarkvörður í handbolta og formaður íþróttanefndar ríkisins, og Hrafnhildur Lúthersdóttir, sundkona og ólympíufari. Þau sátu svo í pallborði með Antoni Sveini McKee og Sif Atladóttur um ýmsa þætti afreksmála.
Að því loknu hélt dr. Erlingur Jóhannsson, prófessor við Háskóla Íslands og meðlimur í starfshópi ráðuneytisins erindi um Afreksmiðstöðina Team Iceland. Alvin de Prins, framkvæmdastjóri Afreksíþróttamiðstöðvarinnar í Lúxemborg, lýsti starfinu í heimalandi sínu og Pia Mørk Andreassen, svæðisstjóri Afreksmiðstöðvarinnar í Noregi, lýsti norska módelinu. Þau settust síðan í pallborð með Vésteini Hafsteinssyni.
Kristjana Arnarsdóttir var fundarstjóri á ráðstefnunni.
Ráðstefnunni var svo slitið með stuttum ávörpum Ásmundar Einars Daðasonar, Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga, Lárusar L. Blöndals, forseta ÍSÍ, og Auðar Ingu Þorsteinsdóttur, framkvæmdastjóra UMFÍ. Þar vakti Ásmundur athygli á því að fyrir nokkrum árum hefði framkvæmdastjóri og formaður ÍSÍ og UMFÍ ekki staðið saman á sviði. Nú heyri allur rígur sögunni til og vilji nú allir vinna að því saman að styrkja umhverfi íþrótta, þar á meðal afreksmála.