02. maí 2024
Námskeið í barnavernd
Námskeið fyrir starfsfólk íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar
Mánudaginn 6. maí fara fram tvö námskeið í félagsheimili KFUM og K í Sunnuhlíð 12 á Akureyri.
Dagskráin er eftirfarandi:
- Klukkan 17:00 Verndum þau. Kennari Þorbjörg Sveinsdóttir.
- Klukkan 19:30 Samskipti og siðareglur. Kennari Hjördís Rós Jónsdóttir.
Boðið verður upp á léttan kvöldmat á milli námskeiða. Námskeiðið er þátttakendum að kostnaðarlausu en það þarf að skrá sig til þátttöku á heimasiðu Æskulýðsvettvangsins, aev.is.
Verndum þau
Verndum þau fjallar um barnavernd og hvernig bregðast á við grun um ofbeldi og vanrækslu gegn börnum og ungmennum.
Á námskeiðinu er m.a. farið yfir:
- Tilkynningaskyldu starfsmanna sem vinna með börnum og unglingum.
- Líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi og vanrækslu hvers konar.
- Hvernig taka skuli á móti ofbeldisfrásögn.
- Reglur í samskiptum við börn og ungmenni.
- Ýmis atriði sem gott er fyrir vinnuveitendur að hafa í huga.
- Úrræði sem í boði eru í samfélaginu fyrir börn og unglinga sem eru þolendur ofbeldis.
Samskipti og siðareglur
Markmið með námskeiðinu Samskipti og siðareglur er að kynna sameiginlegar siðareglur fyrir starfsfólki og sjálfboðaliðum innan félagasamtakanna sem mynda Æskulýðsvettvanginn.
Á námskeiðinu er m.a. farið yfir eftirfarandi atriði:
- Hvað eru jákvæð og neikvæð samskipti?
- Af hverju er siðareglur mikilvægar?
- Hvernig samskipti eigum við að tileinka okkur gagnvart iðkendum í starfinu?
- Hvers konar atvik tengd samskiptum geta komið upp í starfinu og hvernig á að bregðast við?
- Hver er tilkynningarskylda þeirra sem starfa með börnum og ungmennum?
Æskulýðsvettvangurinn
Námskeiðin eru á vegum Æskulýðsvettvangsins sem er samstarfsvettvangur UMFÍ, Skátanna, KFUM og K á Íslandi og Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Markmið vettvangsins er að stuðla að auknu samtali og samstarfi á sviðum leiðtogaþjálfunar, fræðslu- og forvarnamála, útbreiðslu og kynningar sem og á öðrum sviðum eftir því sem þurfa þykir.