Fara á efnissvæði
17. febrúar 2021

Neteinelti barna algengara en fólk heldur

„Þegar barn sýnir streitumerki eða verður óttaslegið þegar sími gefur frá sér hljóð eða önnur merki um rafræn skilaboð þá getur það verið vísbending sem að það sé þolandi neteineltis. Það er mun algengara en fólk heldur og er stærsta ógnin sem börn og ungmenni standa frammi fyrir,“ segir Sema Erla Serdar, framkvæmdastýra Æskulýðsvettvangsins.

Hún bendir á að vísbendingar um að neteinelti eigi sér stað eru margar.  Flestar eigi þær það sameiginlegt að breytingar verða á hegðun þolanda.

Dæmi um neikvæðar skeytasendingar á samfélagsmiðli má sjá á myndunum bæði hér að ofan og neðan.

 

 

„Það getur birst með þeim hætti að börn fara að draga sig æ meira í hlé frá vinum, hafa ekki lengur löngun til að fara í skólann, vilja ekki hitta vini sína, stunda áhugamál  og neita að ræða netnotkun sína. Vísbendingarnar geta líka komið fram sem skyndileg reiði, pirringur, lystarleysi, erfiðleikar með svefn og mögulega tilraunir til sjálfsskaða og sjálfsvígs,“ heldur hún áfram.

Sema  segir fullorðið fólk gegna oft lykilhlutverki þegar komi að því að stöðva neteineltið. Þar á meðal geta verið foreldrar og forsjáraðilar eða starfsmaður eða sjálfboðaliði í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi.

 

 

„Ef þú ert forsjáraðili þá geturðu opnað á umræðuna í samræðum við barnið og aukið líkurnar á því að það segi frá. En það er mikilvægt að hlusta og dæma ekki og láta barnið finna að það hefur stuðning. Barnið þarf að finna að þið takið saman á málinu sem um ræðir og með viðeigandi aðilum“ segir hún og leggur áherslu á að mikilvægt er að opna umræðuna svo börn og iðkendur í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi geti leitað til fullorðinna einstaklinga eftir aðstoð, bæði til að greina frá ofbeldi gegn því en líka til að segja frá ofbeldi sem það telur að önnur börn verði fyrir.

 

 

Æskulýðsvettvangurinn býður upp á rafrænt örnámskeið um neteinelti á meðal barna og ungmenna fimmtudaginn 18. febrúar kl. 13:15.

Námskeiðið er hluti af vitundarvakningu Æskulýðsvettvangsins um neteinelti á meðal barna og ungmenna og hefur það að markmiði að auka vitund um einelti á netinu og sporna gegn því að börn og ungmenni tileinki sér slíka hegðun.

Námskeiðið fer fram hér: https://fb.me/e/2hijOn1mG

Hægt er að smella á myndina og skrá sig.