Öflug og samræmd íþróttahéruð
Lengi hefur verið rætt um nauðsyn þess að endurskoða málefni íþróttahéraða með það fyrir augum að styrkja íþróttafélögin og starfið um allt land. Ýmsar sviðsmyndir hafa verið settar fram. En hvernig er hljóðið innan íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar?
Hér rýnum við í málið.
„Við hjá UMSB höfum ekki mótað okkur heildstæða skoðun í þessum málum en teljum mikilvægt að tekið sé alvarlegt samtal um framtíðarskipulag íþróttamála á Íslandi og gefin sé góður tími í samráð og skipulag,“ segir Sonja Lind Estrajher Eyglóardóttir, sambandsstjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB), eins af sambandsaðilum UMFÍ. Hún bendir á að virkileg þörf sé á að taka alvarlega samtal um framtíðarsýn íþróttamála á Íslandi í stóru samhengi.
„Mikilvægt er að hugsa um hvernig við værum að skipuleggja starfið ef við værum að byrja á byrjunarreit. Staðan í dag er ekki sú sem hægt er að treysta á til framtíðar og þörf er á breytingum en um þær þarf fyrst og fremst að skapast sátt,“ segir hún.
Endurskoða íþróttahéruðin
Að afloknu sambandsþingi UMFÍ sem haldið var á Húsavík 15.–17. október 2021 skipaði stjórn UMFÍ, í samræmi við samþykkt þingsins, sérstakan vinnuhóp um íþróttahéruð og lottóreglur. Var hópnum ætlað að fara með mál í umboði stjórnar og samkvæmt samþykktum lögum UMFÍ.
Hópurinn var skipaður þeim Gunnari Þór Gestssyni, formanni og varaformanni UMFÍ, Guðmundi Sigurbergssyni, Guðmundu Ólafsdóttur Jóhönnu Írisi Ingólfsdóttur frá USÚ, Dagnýju Finnbjörnsdóttur frá HSV, og Frímanni Ara Ferdinandssyni frá ÍBR.
Hlutverk hópsins er m.a. að halda áfram vinnu framtíðarnefndar um málefni íþróttahéraða og aðild allra íþróttahéraða að UMFÍ. Nefndinni var ætlað að skipa fulltrúa í nefnd um upplýsingakerfi ÍSÍ og UMFÍ og í vinnuhóp um íþróttahéruð á vegum ÍSÍ. Þá á nefndin að vinna í skilgreiningum á mælikvörðum íþróttastarfs í samvinnu við ÍSÍ. Einnig var nefndinni ætlað að setja á reglulega fundi á milli íþróttahéraða á vettvangi UMFÍ, ásamt því að taka við tilfallandi verkefnum frá stjórn UMFÍ á starfstíma sínum.
Hópnum er ætlað að ljúka störfum á sambandsþingi UMFÍ haustið 2023.
Smáir en knáir
Á sambandsráðsfundi UMFÍ sem haldinn var á Höfn í Hornafirði í október 2022 kynnti hópurinn vinnu sína og varpaði fram ýmsum tillögum.
Að mati hópsins er hvert íþróttahérað að vinna eftir sínu höfði og með fleiri og fjölbreyttari hlutverk en fram kemur í íþróttalögum, lögum UMFÍ og lögum ÍSÍ. Velta starfsmanna og sjálfboðaliða er hröð og samræming og skilgreiningar milli héraða eru ekki til staðar. Íþróttahéruðin eru annars vegar sterkar einingar og hins vegar veikar einingar. Margir meðlimir hópsins upplifa að almenn þekking og viðhorf á íþróttahéruðum sé lítil. Margir smáir aðilar séu á meðal þeirra og sums staðar einungis „skúffa“ til útdeilingar fjármuna.
Mismunandi áherslur eru innan íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar eftir því á hvaða stig er litið.
Á fyrsta stigi, hjá ÍSÍ og UMFÍ, er ákveðin umgjörð til staðar þar sem eru lög, regluverk, sjóðir og stuðningur. Þar er líka ákveðin sérþekking og sameiginleg þjónusta fyrir hreyfinguna alla.
Á öðru stigi eru íþróttahéruðin sjálf, sem eru flest með nærþjónustu í heimahéraði. Þau eru með verkefni og þjónustu fyrir aðildarfélög, hvert á sínu svæði, og má segja að samræming sé við önnur íþrótta- héruð og áhersluverkefni.
Á þriðja stiginu eru svo íþrótta- og ungmennafélögin í landinu. Þau eru með skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf sem byggir á stuðningi frá íþróttahéraðinu.
Vinnuhópurinn hefur fundað nokkrum sinnum og m.a. tekið eina vinnustofu á Laugarvatni.
Fullt samkomulag er í hópnum um að leggja til ákveðna vegferð og vinna tillögu á þeim nótum.
Hópurinn kynnti m.a. á sambandsþinginu stjórnsýsluskipulagið eins og það er hjá Landssamtökum sveitarfélaga. Þar er stjórnun eftir landshlutum, með mörgum launagreiðendum, mörgum starfsstöðvum og dreifðri fjármögnun.
Hjá sýslumannsembættinu er líka stjórn á landsvísu en einn launagreiðandi. Þar eru margar starfsstöðvar og miðlæg fjármögnun.
Hugsanleg sviðsmynd
Hópurinn setti á sambandsþinginu fram hugsanlega sviðsmynd. Hún fól í sér starfsstöðvar um landið sem myndu þjónusta nokkur íþróttahéruð. Starfsfólk á öllum starfsstöðvum væri með ákveðið samspil og samskipti yrðu milli starfsstöðva.
Nefnt var samstarf og samvinna við landshlutaskrifstofur sveitarfélaga. Einnig samstarf um verkefni á landsvísu, íþróttamál, lýðheilsu og mannvirki. Í sviðsmyndinni er reiknað með að fjármögnun komi frá ríkinu og að starfsemin mæti markmiðum íþróttastefnu ríkisins um að efla íþróttahéruð. Einnig að fjármagn komi frá Lottói í gegnum ÍSÍ og UMFÍ. Úthlutun yrði annars vegar til landshlutastarfsstöðva og hins vegar almenn úthlutun.
Markmiðið yrði skilvirk og viðbragðsfljót hreyfing. Í því felst m.a. að styrkja stefnumótandi vinnu og aðgerðir á landsvísu, að hreyfingin verði með skýra ábyrgð og hlutverk og að heildarsamtakamáttur verði þvert á ungmennafélagshreyfinguna. Betri nýting verði á mannauði og aðföngum, aukið og samræmdara samspil á milli eininga í hreyfingunni og öflugur stuðningur og þjónusta við félög og fjölbreyttar þarfir um land allt.
Hópurinn lagði áherslu á að skipulag íþróttahéraða væri lykilhluti af svarinu við því hvernig hreyfingin gæti náð markmiðunum um að vera skilvirk, samræmd og viðbragðsfljót hreyfing í takt við kröfur nútímans.
Á sambandsráðsfundinum fór hópurinn fram á að fá stuðning og umboð til þess að vinna tillögu varðandi skipulag íþróttahéraða frekar, í samvinnu við hreyfinguna. Þar yrði komið inn á fjármögnun, útfærslu og starfssvæði. Fundurinn samþykkti að veita hópnum umboð til áframhaldandi starfa á þeim nótum.
Raddir í hreyfingunni
Í þriðja tölublaði Skinafaxa, tímariti UMFÍ, er rætt við nokkra viðmælendur úr ungmennafélagshreyfingunni um endurskoðun á íþróttahéruðum.
Þar á meðal eru Einar Haraldsson, formaður og framkvæmdastjóri Keflavíkur, Benedikt Jónsson, formaður Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA), Ingvar Sverrisson, formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR), Geir K. Aðalsteinsson, formaður Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA), Dagný Finnbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri Héraðssambands Vestfirðinga, auk Sonju.
Sonja segir mikilvægt að passa upp á að allir hafi jafnan aðgang og enginn sé skilin eftir, sérstaklega þegar litið er til hinna dreifðu byggða.
„Það sem skiptir öllu í þessu máli er að vandað sé til verka, öllum sé ljóst hvers vegna það sé til hagsbóta fyrir íþróttahéruð að sameinast. Með stærðarhagkvæmni má ná fram meiri árangri. En það má ekki vera á kostnað smærri aðildarfélaga,“ segir hún.
Nýjasta tölublað Skinfaxa er hægt að lesa í heild sinni hér:
Þú getur lesið eldri tölublöð Skinfaxa allt aftur til fyrsta tölublaðs á Netinu: Eldri tölublöð Skinfaxa
Þú þarft ekki að hala Skinfaxa niður. Þú getur lesið það á ISSUU