Ólögleg íþróttaveðmál vaxandi vandi á Íslandi

Íþróttaveðmál á ólöglegum veðmálasíðum hafa færst gríðarlega í aukana hér á landi undanfarin ár og eru orðin stórt vandamál ef marka má fyrirlesara á málþinginu Íþróttir, veðmál og samfélagið – hvert stefnum við? sem ÍSÍ, UMFÍ, ÍBR og KSÍ stóðu saman að í síðustu viku.
Ljóst er að mikil vinna er framundan við að ná heildstætt utan stöðuna sem blasir við og bæði þarft og nauðsynlegt að vanda til verka við framhaldið.
Eru veðmál eðlilegur hluti af leiknum?
Daníel Þór Ólason, prófessor við Háskóla Íslands, greindi frá því að orðræðan um íþróttaveðmál í auglýsingum, íþróttahlaðvörpum og hjá áhrifavöldum sé á þá leið að veðmál séu eðlilegur hluti af leiknum. Hann vitnaði meðal annars í rannsókn sem var framkvæmd árið 2016, fyrir tæpum áratug, og var lögð fyrir alla leikmenn íslenskra félagsliða sem skráð voru í Íslandsmót KSÍ. Svarhlutfall var 33%, 547 karlar og 178 konur. Tæplega helmingur fótboltakarla (49,8%) hafði veðjað á úrslit fótboltaleikja á erlendum vefsíðum og rúmlega 22% gerðu það vikulega eða oftar. Um 6% fótboltakvenna hafði veðjað á úrslit fótboltaleikja, flestar sjaldnar en mánaðarlega og þá aðallega á íslenskum síðum.
Ekki nóg að hitta vini
Bolli Steinn Huginsson, ráðgjafi í samskipta- og markaðsmálum hjá Atón, fór yfir markaðssetningu og veðmál út frá sjónarhóli ungs karlmanns á Íslandi. Frá hans sjónarhorni finnst yngra fólki að það sé ekki lengur nóg að hitta vini og horfa á leik saman, nú snýst leikurinn líka um það hvernig hægt sé að reyna að græða pening á meðan á leik stendur.
Loka á 18 ára og yngri
Sveinbjörn Snorri Grétarsson, forstöðumaður greiðslukortaviðskipta hjá Íslandsbanka, greindi frá því hvernig bankinn hefði lokað á kortaviðskipti 18 ára og yngri við ólöglegar veðmálasíður. Kortavelta hjá þessum aldurshópi við umræddar veðmálasíður nam fleiri hundruðum milljóna – og það aðeins hjá Íslandsbanka.
Fráhvörf ungs fólks frá íþróttaveðmálum
Bergþóra Kristín Ingvarsdóttir, sálfræðingur hjá SÁÁ, fór yfir spilavanda og spilafíkn og greindi meðal annars frá því að ungt fólk hefði leitað inn á Vog til að fá lyf og komast yfir verstu fráhvörf íþróttaveðmála. Aðeins um 10% eru í dag að opna á vandann vegna spilafíknar. Vandamálið sé gríðarlegt og fæstir sem átta sig á því hverjar afleiðingarnar geta orðið.
Ungt fólk er ekki markhópurinn
Einar Njálsson, markaðsstjóri Íslenskra getrauna, ræddi ábyrga spilun og hvernig Íslenskar getraunir bera sig að í þessum efnum.
Íslenskar getraunir takmarka upphæðir við ákveðið hámark á dag, á viku og á mánuði. Markaðssetning snýr ekki að ungu fólki og ekki eru veittar peningagjafir eða bónusar, eins og þekkist víða á veðmálasíðum.
Óheilbrigðir hvata geta skapast
Birgir Sverrisson, framkvæmdastjóri Lyfjaeftirlits Íslands (LÍ), fór yfir hlutverk LÍ í tengslum við veðmál og hagræðingu úrslita á Íslandi, en LÍ hefur tekið að sér hlutverk sem snýr að fræðslumálum um hagræðingu úrslita.
Hann benti á ýmsar reglur sem gilda um veðmál og íþróttastarfsemi, s.s. að óheimilt sé að veðja á eigin leiki þar sem líkur eru á að óheilbrigðir hvatar skapist fyrir mismunandi niðurstöðu og um leið hagræðingu úrslita.
Fræðsluefni gegn hagræðingu úrslita
Birgir Jóhannsson, hjá Íslenskum toppfótbolta (ÍTF), greindi frá því að ÍTF sé þegar komið með fræðsluefni gegn hagræðingu úrslita og námskeið um ábyrga veðmálaþátttöku. Sé niðurstaða námskeiðsins á þá leið að viðkomandi gæti átti við vandamál að stríða fær hann upplýsingar um hvert hægt sé að leita.
Áhrif veðmála á íþróttafólk
Hörður Axel Vilhjálmsson, landsliðsmaður í körfubolta til margra ára, fór yfir þau áhrif sem veðmálastarfsemi getur haft á íþróttafólkið sjálft.
Hann sýndi nokkur rætin skilaboð sem hann hafði sjálfur fengið frá aðilum sem veðjað höfðu á leik sem Hörður spilaði. Skilaboðin gáfu til kynna að viðkomandi hefði tapað háum fjárhæðum vegna úrslita eða atvika ákveðins leiks og skelltu skuldinni alfarið á leikmanninn sjálfan. Vitað er að víða er hægt að veðja á úrslit yngri flokka og benti Hörður því á að skilaboð, líkt og þau sem hann hefur fengið, gætu vel ratað til barna og leitt til mikillar vanlíðunar.
Íþróttahreyfingin þurfi að snúa bökum saman
Ingvar Sverrisson, formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur, lauk málþinginu á samantekt og benti á að notkun á erlendum veðmálasíðum hafi margfaldast á liðnum árum. Hann benti á að íþróttahreyfingin þurfi öll að snúa bökum saman þegar kemur að því að mæta þessari miklu áskorun og gæta sérstaklega að hagsmunum næstu kynslóða hvað varðar óáæskilega hegðun og áhættu varðandi spilafíkn og spilavanda.
Streymi af málþinginu má finna hér: Málþing: Veðmál, íþróttir og samfélagið – hvert stefnum við?





