Opið fyrir skráningu á ráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði 2020
Skráning er hafin á ungmennaráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði. Ráðstefnan fer fram dagana 1.- 3. apríl næstkomandi í Héraðsskólanum á Laugarvatni. Yfirskrift ráðstefnunnar er Lýðræðisleg áhrif: Hvar, hvenær og hvernig hefur ungt fólk áhrif?
Ungmennaráðstefnan Ungt fólk og lýðræði leggur áherslu á að efla lýðræðislega þátttöku ungs fólks í leik og starfi. Þar er lögð áhersla á að einstaklingar geti styrkt sjálfsmynd sína og tekið upplýstar ákvarðanir um eigið líf og lífsstíl. Ráðstefnan hefur verið haldin árlega frá árinu 2009 og hefur því fest sig í sessi á meðal mikilvægustu viðburða fyrir ungt fólk á Íslandi. Aðalstyrktaraðili ráðstefnunnar eru Erasmus+
Ráðstefnan er ætluð ungu fólki á aldrinum 16–25 ára. Fjöldi þátttakenda er takmarkaður og komast aðeins 80 manns á ráðstefnuna. Fullorðinn einstaklingur þarf að fylgja þátttakendum yngri en 18 ára. Þátttökugjald er 15.000 kr. fyrir hvern einstakling. Innifalið í gjaldinu eru ferðir, uppihald og ráðstefnugögn. UMFÍ styrkir 80% af ferðakostnaði. Rúta fer frá þjónustumiðstöð UMFÍ í Reykjavík á miðvikudeginum og til baka á föstudeginum. Skila þarf inn kvittunum til þess að fá styrk fyrir ferðakostnaði.
Ungmennaráð UMFÍ hefur veg og vanda að ráðstefnunni.
Athygli er vakin á því að viðburðurinn er með öllu vímuefnalaus, á það einnig við um rafrettur.
Fyrstir koma, fyrstir fá
Skráning er til 20. mars. Þau sem vilja sitja ráðstefnuna þurfa að bretta upp ermar. Því fyrstur kemur fyrstur fær. Mikil eftirspurn er eftir sætum og eru þau fljót að fyllast.
Meiri upplýsingar um ráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði má sjá hér.
SMELLTU HÉR TIL ÞESS AÐ SKRÁ ÞIG Á RÁÐSTEFNUNA 2020
Hér má sjá myndband frá ungmennaráðstefnunni sem fram fór í Borgarnesi á síðasta ári. Þar voru fjölmargir gestir sem héldu erindi og sátu í pallborði.