Fara á efnissvæði
26. september 2024

Orka ungs fólks var áþreifanleg

„Ég svíf um á bláu UMFÍ-skýi eftir helgina. Stemningin var ótrúlega góð alla ráðstefnuna og orkan áþreifanleg,“ segir Halla Margrét Jónsdóttir, formaður Ungmennaráðs UMFÍ. Ráðið stóð fyrir ungmennaráðstefnunni Ungt fólk og lýðheilsa á Reykjum í Hrútafirði dagana 20. – 22. september. Ráðstefnan hefur verið haldin í 15 ár eða frá árinu 2009. 

Ráðstefnan er fyrir ungt fólk af öllu landinu á aldrinum 15 ára og upp í 30 ára. Aðsóknin var gríðarlega góð og hafa aldrei fleiri sótt ráðstefnuna. Um 80 þátttakendur á aldrinum 15-30 ára skráði sig. Með fyrirlesurum, leiðbeinendum sem fylgdu sumum hópum og gestum sóttu ráðstefnuna yfir 100 manns. 

Markmið ungmennaráðstefnunnar Ungt fólk og lýðheilsa var að efla vitund ungs fólks á öllum þáttum heilsu, þ.e. líkamlegri-, andlegri- og félagslegri heilsu. Einnig var markmiðið að skapa vettvang fyrir ungt fólk til þess að koma saman og ræða um það hvernig ungt fólk getur lagt sitt að mörkum til þess að bæta lýðheilsu í samfélaginu. Þátttakendur sem hafa áður komið á ráðstefnuna sögðu áhrif hennar afar góða. Þátttakendur hafi aukið félagslega hæfni sína og lært að vinna með ýmis gildi, á borð við samstöðu, lýðræði og vináttu. 
Dagskrá ráðstefnunnar var afar fjölbreytt og innihélt meðal annars mikið hópefli og samveru, kynningar, uppörvandi og hvetjandi málstofur, skemmtun við varðeld og alls konar upplifun. 

„Það sem stóð upp úr fyrir mig persónulega var að sjá þátttakendur opnast, öðlast sjálfstraust, kynnast öðrum ungmennum og verða góðir vinir. Mörg ný tengsl urðu til og gömul styrktust. Ungmennin opnuðust og komu út úr skelinni og blómstruðu. Ég vona að þau viðhaldi þessum tengslum sem urðu til um helgina,“ segir Halla Margrét. 

 

Magnaður fróðleikur

Fyrirlesarar komu á ráðstefnuna á laugardeginum og fluttu ávörp og stýrðu málstofum.

Ólympíufarinn Anton Sveinn McKee hélt erindi um sundferil sinn og þeim þáttum heilsu sem skiptir máli að hlúa að til þess að ná árangri, Logi Geirsson, fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta og einkaþjálfari, fór yfir mikilvægi líkamlegrar heilsu, Aldís Arna Tryggvadóttir, markþjálfi og streituráðgjafi, einblíndi á gleðina og fjallaði um tilfinningar fólks og að lokum fór Sabína Steinunn Halldórsdóttir, íþrótta- og heilsufræðingur og kennari, yfir mikilvægi félagslegra tengsla, þátttöku í félagsstarfi og mikilvægi þátttöku í samfélaginu. 

Á sunnudeginum fór fram kaffihúsaspjall þar sem ráðstefnugestum gafst tækifæri til að ræða við ráðherra, þingmenn og áhrifafólk á jafningjagrundvelli. Jafnframt fengu gestirnir tækifæri til þess að heyra raddir og skoðanir ungmenna. 

Þessi komu og tóku þátt í spjallinu (upptalning í stafrófsröð): 

  • Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata
  • Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra
  • Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks
  • Eva Dögg Davíðsdóttir, þingmaður Vinstri grænna
  • Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata og talsmaður barna á Alþingi
  • Helgi Ómarsson, ljósmyndari, hlaðvarpsstjórnandi og tískubloggari
  • Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ
  • Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingar
  • Kristófer Þorgrímsson spretthlaupari
  • María Rut Kristinsdóttir, varaþingmaður Viðreisnar og stofnandi Hinseginleikans

Halla segir þátttakendur í kaffihúsaspjallinu hafa tekið með sér heilmikið veganesti af ráðstefnunni. Ungmenni hafi sem dæmi rætt við Ásmund Einar um það að þau vilji að allir grunnskólar landsins verði símalausir.

„Það verður mjög áhugavert að sjá hvernig þetta þróast,“ bætir Halla við og bendi á að mörg hafi verið klædd bleikum fatnaði til minningar um Bryndísi Klöru, sem lést af sárum sínum eftir að hafa orðið fyrir hnífaárás á Menningarnótt í ágúst.

Halla segir mikið hafa líka verið rætt um andlega heilsu ungs fólks og mikilvægi þess að þau hafi aðgengi að einhverjum til að ræða við um andlega heilsu, hvort sem það sé í félagsmiðstöð eða við sálfræðinga í skólum. 

„Aðgengi að sálfræðingum í framhaldsskólum er mjög misjafnt og úr því er hægt að bæta,“ segir Halla Margrét að lokum. 

 

Hér að neðan má sjá myndir frá ráðstefnunni.

Fleiri myndir má sjá á Facebook