Fara á efnissvæði
15. maí 2025

Óskar endurkjörinn formaður í Fjallabyggð

Landsmót UMFÍ 50+ er handan við hornið á Siglufirði og Ólafsfirði í lok júní. Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri móta UMFÍ, hvatti í gær heimafólk þar til samstöðu um að gera mótið glæsilegt. Hann var gestur á ársþingi Ungmenna- og íþróttasambands Fjallabyggðar (UÍF), sem haldið var á Siglufirði í gær. 

Á þingið mættu fulltrúar tíu af þrettán aðildarfélögum mættu til þingsins.

Óskar Þórðarson, formaður UÍF, bauð gesti og þingfulltrúa velkomna og fagnaði góðri mætingu. Hann var að því loknu skipaður þingforseti og Brynja Hafsteinsdóttir, starfsmaður UÍF, var þingritari. 

Óskar flutti skýrslu stjórnar og í henni kom fram að starf hennar hefði að mestu verið hefðbundið, þ.e. að deila út fjármagni til aðildarfélaga, samskipti við sveitarfélagið, ÍSÍ og UMFÍ, halda Vetrarleika, yfirfara lög aðildarfélaga og fleira slíkt. Auk þess hefðu bæst við ný ánægjuleg verkefni; að undirbúa Landsmót UMFÍ 50+ sem fer fram í Fjallabyggð í lok júní, samstarf við svæðisskrifstofu vegna undirbúnings að því að UÍF verði Fyrirmyndarhérað ÍSÍ og að gera samning við sveitarfélagið til fjögurra ára þar sem upphæð bæjarstyrksins til íþróttahreyfingarinnar hækkar um eina milljón ár hvert auk þess sem fjárhæð til Frístundastyrks hækkar einnig. Hafa þessir samningar verið undirritaðir og samþykktir í bæjarstjórn.

Þá voru lagðir fram ársreikningar og voru þeir samþykktir samhljóða. Fram kom að fjárhagsstaða UÍF er mjög góð, sem ræðst m.a. af sölunni á Íþróttamiðstöðinni á Hóli á sínum tíma. Undanfarin ár hefur staðið yfir vinna sem snýr að því hvernig söluandvirðinu skuli ráðstafað. Var niðurstaða þeirrar vinnu kynnt á þinginu. Unnin hefur verið svokölluð skipulagsskrá, en slíkar skrár eru gerðar fyrir sjóði og sjálfseignarstofnanir sem stunda ekki atvinnurekstur og staðfestar af sýslumanni. Samkvæmt skipulagsskránni verður höfuðstóll sjóðsins aldrei minni en 60 milljónir og vextirnir af upphæðinni nýttir í Verkefna- og Frístundasjóði UÍF og sem viðbót við Lottótekjur þær sem sambandið fær og er dreift út til aðildarfélaga eftir umfangi á starfsemi þeirra.

 

Óskar kjörinn formaður

Gestir þingsins voru auk Ómars þau Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ. Hafsteinn Pálsson var fulltrúi ÍSÍ. Kristján Sturluson og Þóra Pétursdóttir, svæðisfulltrúar íþróttahreyfingarinnar á Norðurlandi eystra, og fulltrúar Fjallabyggðar Guðrún Hauksdóttir, Guðjón M. Ólafsson og Þorgeir Bjarnason voru jafnframt á meðal annarra gesta.

Hafsteinn frá ÍSÍ og Jóhann og Ómar Bragi frá UMFÍ stigu í pontu og þökkuðu fyrir gott þing og sérlega góðar veitingar. Fluttu þeir kveðjur frá stjórnum sinna samtaka og ræddu um ýmis mál sem þar eru efst á baugi þessa stundina s.s. afreksmál, auknar kröfur til íþróttahreyfingarinnar, skattamál, fjárveitingar frá ríkisvaldinu, ferðakostnað, hinar nýju svæðisskrifstofur og fleira. Ómar Bragi ræddi svo um Landsmót 50+, sem er handan við hornið, og hvatti heimafólk til dáða og til samstöðu um að gera þetta mót glæsilega úr garði.

Að því loknu var gengið til kosninga. Óskar var sjálfkjörinn formaður UÍF.

Stjórn UÍF er eftir þingið Sandra Finnsdóttir, Guðrún Sif Guðbrandsdóttir, Þórarinn Hannesson og Elsa Guðrún Jónsdóttir. Fyrir í stjórn eru þær Arnheiður Jónsdóttir og Anna Þórisdóttir og úr stjórn gengu Eva Björk Ómarsdóttir og Kristján Hauksson. Skoðunarmenn reikninga voru kjörnir Rósa Jónsdóttir og Dagný Finnsdóttir.