Petra hjá UMFÞ: Pönnukökubakstur kannski á dagskrá
Landsmót UMFÍ 50+ fer fram í fyrsta sinn undir merkjum Þróttar Vogum í júní 2024. Mikil spenna er þar fyrir mótinu og gengur undirbúningur vel.
„Undirbúningur gengur mjög vel, við erum komin vel af stað, erum búin að setja saman nefnd, heyra í styrktaraðilum og margt fleira,“ segir Petra Ruth, formaður Þróttar Vogum, um Landsmót UMFÍ 50+ sem verður haldið í Vogum á Vatnsleysuströnd í samstarfi við Ungmennafélagið Þrótt og Sveitarfélagið Voga dagana 7.–9. júní 2024.
Dagskrá mótsins liggur fyrir í byrjun janúar svo að hægt verði að skipuleggja starf sjálfboðaliða í Vogum.
„Okkur gengur vel að safna sjálfboðaliðum, við vorum með fund í nóvember með öllum félagasamtökum á svæðinu til að kalla til sjálfboðaliða og var einróma tekið vel í það. Nú erum við búin að auglýsa vel innan Voga að mótið sé á dagskrá og það stefni í stórt ár svo að allir séu í stakk búnir og vinna saman að góðu móti,“ segir Petra og bætir við að fólk á svæðinu sé spennt fyrir mótinu.
„Okkur langar að skapa góða bæjarstemningu fyrir alla, bæði þátttakendur og aðra sem verða á svæðinu. Við erum að skipuleggja popup-viðburði, heimatónleika og opin hús, ætlum að hafa matarvagna á svæðinu og margt fleira. Nokkrir bæjarbúar hafa rifjað upp keppni í pönnukökubakstri og því er aldrei að vita nema greinin verði á dagskrá,“ segir Petra Ruth.
Allar upplýsingar um mótið er að finna á: