Petra Ruth ætlar að sitja eitt ár til viðbótar
„Ég bið ykkur öll að vera vakandi fyrir næsta formannsefni næstu tólf mánuðina. Við erum saman í þessu,“ skrifaði Petra Ruth Rúnarsdóttir, formaður Þróttar Vogum, í ávarpi sínu á aðalfundi félagsins í síðustu viku. Þar tilkynnti Petra að hún ætli að sitja eitt ár til viðbótar en hætta svo sem formaður félagsins.
Petra Ruth er þrítug og með yngri formönnum sambandsaðila UMFÍ. Þrátt fyrir það hefur hún setið í stjórn Þróttar frá árinu 2017 en þá var hún 23 ára. Hún hefur nú verið formaður síðastliðin fimm ár.
Þróttur Vogum er einn af 27 sambandsaðilum UMFÍ og eitt af um 480 félögunum UMFÍ.
Í ávarpi Petru á aðalfundi Þróttar Vogum í síðustu viku sagði hún ekki sjálfgefið að fá fólk til að vinna að öllum þeim verkefnum sem félagið hafi á sinni könnu. Flest séu þau unnin í sjálfboðaliðastarfi.
„Þetta er mikið hugsjónarstarf og samfélagið okkar nýtur góðs af því. Það að sinna sjálfboðaliðastarfi í dag er fjarri því að vera sjálfsagt og því fylgir oft mikið álag. Við fáum oft að heyra að maður kemur í manns stað þegar fólk lætur af störfum, ég er ekki alltaf sammála, en það hefur reynst erfiðara og erfiðara með árunum að fá fólk til að sinna þessum mikilvægu störfum í samfélaginu okkar,“ sagði hún og benti á að sjálfboðaliðum hafi fækkað hratt á síðustu tveimur árum. Hún og félagar hennar hjá Þrótti Vogum hafi miklar áhyggjur af þróun mála. En þetta sé því miður ekki einsdæmi.
Petra notaði því tækifærið og hvatti fólk til að gefa af sér í formi sjálfboðaliðastarfa, sérstaklega nú þegar styttist í Landsmót UMFÍ 50+, sem verður haldið helgina 7.- 9. júní.
„Því vil ég biðla til ykkar allra að gefa ykkur tíma til að taka þátt í að auðga okkar samfélag því á sama tíma er þetta mjög skemmtilegt og gefandi starf að vera sjálfboðaliði. Nú þegar líður senn að Landsmóti verða verkefnin fjölmörg og finn ég að mikil spenna er að safnast upp og margir búnir að bjóðast til að aðstoða. Við erum þakklát fyrir það,“ sagði hún.
Aðalfundurinn var ágætur og stjórnin nokkurn vegin óbreytt að því undanskildu að varaformaður Reynir Emilsson gaf ekki kost á sér áfram.