Ráðherra býður til samráðs um frumvarp
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, vinnur að undirbúningi frumvarps til laga um skólaþjónustu. Markmið laganna er að tryggja jafnræði í þjónustu við börn og ungmenni í leik-, grunn- og framhaldsskólum óháð aldri, uppruna og búsetu, mæta ákalli um aukna ráðgjöf og stuðning við starfsfólk og stjórnendur á vettvangi skólans, efla þverfaglega samvinnu og samþættingu milli skóla- og þjónustustiga í þágu farsældar barna og tryggja öllum skólum faglegt bakland í sínum fjölbreyttu verkefnum.
Ráðherra kallar eftir víðtæku samráði við hagsmunaaðila í vinnunni til að koma sem best til móts við þarfir allra tengda skólasamfélaginu og tengdra þjónustukerfa, þar á meðal barna og ungmenna, foreldra, kennara, stjórnenda og starfsfólks leik-, grunn- og framhaldsskóla, frístundaheimila, félagsmiðstöðva, skólaþjónustu og annarra þjónustukerfa.
Allir sem áhuga hafa getið tekið þátt í vinnunni og sent inn ábendingar, komið upplýsingum á framfæri eða skráð sig til þátttöku í samráðshópum sem munu taka til starfa á næstu vikum.
Í boði til samráðs skrifar Ásmundur að ein af meginatriðum menntastefnu til ársins 2030 sé uppbygging heildstæðrar skólaþjónustu um allt land sem byggi á þrepaskiptum stuðningi. Einkunnarorð stefnunnar séu: Framúrskarandi menntun alla ævi. Hún hvíli á fimm stoðum: Jöfnum tækifærum allra, kennslu í fremstu röð, hæfni fyrir framtíðina, vellíðan í öndvegi og gæðum í forgrunni.
Þeim sem vilja skrá sig eða senda inn ábendingar er bent á að gera það fyrir lok dags 4. nóvember nk. með því að senda póst á netfangið mrn@mrn.is merkt skólaþjónusta.