05. ágúst 2017
Ráðherra hrósar UMFÍ
„Hjá mörgum fjölskyldum um land allt er landsmótið orðið að ómsissandi viðburði á hverju ári. „Það er jákvætt því slík samvera treystir fjölskyldubönd og stuðlar jafnframt að því að framtíð unglinga byggi á traustum grunni,“ sagði Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra við setningu Unglingalandsmóts UMFÍ sem fram fór á Vilhjálmsvelli á Egilsstöðum á föstudag.
Kristján minntist þess að fyrsta unglingalandsmótið var haldið á Dalvík árið 1992 að frumkvæði heimamanna og hafði það síðan fest sig í sessi sem ein af umfangsmesta og best sótta hátíð unglinga á hverju ári.
Kristján sagði mótið hafa það fram yfir margar aðrar hátíðir að byggja á samveru fjölskyldunnar og það sem mest er um vert þá sé það vímulaus samvera.
Kristján benti jafnframt á þann árangur sem náðst hafi í því að draga úr neyslu tóbaks, áfengis og annarra vímuefna á meðal unglinga. Það hafi vakið athygli um allan heim.
„Ég tel það engum vafa undirorpið að sú hugmyndafræði sem hér er unnið eftir er einn af hornsteinunum sem sá árangur byggir á,“ sagði hann og hrósaði UMFÍ fyrir starfið síðastliðin 110 ár.