Fara á efnissvæði
09. september 2024

Ráðstefna fyrir ungt fólk

Ungt fólk og lýðheilsa 2024

Ungmennaráð UMFÍ stendur fyrir ungmennaráðstefnunni Ungt fólk og lýðheilsu dagana 20. – 22. september á Reykjum í Hrútafirði. 

Eins og nafnið gefur til kynna er ráðstefnan fyrir ungt fólk á aldrinum 15 - 30 ára. Allt ungt fólk á tilsettum aldri er velkomið á ráðstefnuna.

 

Tækifæri til skoðanaskipta

Ungt fólk sem hefur komið á ráðstefnuna í gegnum árin segir hana haft afar góð áhrif. Fólk hafi aukið félagslega hæfni sína og lært að vinna með gildi eins og samstöðu, lýðræði og vináttu. Valdefling hafi falist í þátttökunni. Þátttakendur hljóta tækifæri til að mynda sér skoðanir og koma þeim á framfæri við jafningja og ráðafólk. Viðburðurinn gefur þannig þátttakendum tækifæri til að hlusta á ólíkar upplifanir og sjónarmið, brjóta ísinn í samskiptum við aðra og fara út fyrir þægindarammann. 

 

Fjölbreytt dagskrá

Dagskráin verður eins og alltaf með fjölbreyttu sniði. Boðið er upp á hópefli og samveru, áhugaverðan fróðleik og uppörvandi og hvetjandi málstofur. Fólk úr stjórnmálum og atvinnulífi mætir á ráðstefnuna og fá þátttakendur tækifæri til að byggja upp tengslanet til framtíðar. Sjá dagskrá hér

 

Óformlegt kaffihúsaspjall

Einn liður ráðstefnunnar er óformlegt samtal ungs fólks og ráðafólks. Markmið með spjallinu er að ungmenni og ráðafólk geti þar rætt saman og lært hvort af öðru á jafningjagrundvelli. Ráðafólk geti t.d. gefið góð ráð um það hvernig ungt fólk nær markmiðum sínum, athygli stjórnvalda og fleira fólks sem það vill ná til. Ráðfólki gefst á móti frábært tækifæri til að hlusta á það sem ungt fólk hefur að segja, heyra skoðanir þeirra og hugmyndir. 

Þeir ráðherrar og þingmenn sem hafa nú þegar staðfest þátttöku eru: 

  • Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. 
  • Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata
  • Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata
  • Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks
  • Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks
  • Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata
  • Jakob Frímann Magnússon, þingmaður Flokk fólksins
  • Lenya Rún Taha Karim, þingmaður Pírata
  • Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar

 

Skráning stendur yfir

Fjöldi þátttakenda er takmarkaður og því borgar sig að bíða ekki of lengi með skráningu. Fullorðinn einstaklingur þarf að fylgja þátttakendum yngri en 18 ára. Þátttökugjald er 15.000 kr. fyrir hvern þátttakanda. Innifalið eru ferðir, uppihald og ráðstefnugögn. Rúta fer frá þjónustumiðstöð UMFÍ í Reykjavík á föstudeginum og til baka á sunnudeginum sem þátttakendur eru hvattir til þess að nýta sér. 


Athygli er vakin á því að viðburðurinn er vímuefnalaus, það sama á við um rafsígarettur og nikótínpúða. 

Skráning er hafin og stendur til 13. september. Smelltu hér til þess að skrá.

Allar upplýsingar um ráðstefnuna má finna á umfi.is.