Fara á efnissvæði
05. desember 2024

Renuka Chareyre: Bros smita út frá sér

Renuka Chareyre er virkur sjálfboðaliði í almenningsíþróttum á Suðurlandi. Renuka stundar hlaup af miklu kappi og lyftir ketilbjöllum hjá Kristófer Helgasyni á Selfossi í hverri viku. Hún starfar hjá MS í vörukynningum en þar hittir hún mikið af fólki sem er einmitt hennar áhugamál.

Sjálfboðaliðar gegna lykilhlutverki í íþróttahreyfingunni hér á landi.

Sjálfboðaliðar vinna óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins. Framlag þeirra er ómetanlegt en því miður oft og tíðum ekki metið að verðleikum. En hvað er það sem knýr sjálfboðaliða áfram að gefa af sér án þess að ætlast til þess að fá neitt í staðinn?

Við tókum á tal harðduglega sjálfboðaliða vítt og breytt um landið og fengum innsýn inn í þeirra starf. Hér fáum við að heyra reynslu þeirra af sjálfboðaliðastarfi og hver hvati þeirra er til að halda áfram að sinna starfi sínu sem sjálfboðaliðar. 

Takk sjálfboðaliðar!

Hvernig sjálfboðaliðastarfi sinnir þú helst? „Störfin eru mjög misjöfn og fjölbreytt en ég er alltaf til í að hjálpa. Meðal annars hef ég sinnt brautargæslu og tekið á móti þátttakendum í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka undanfarin ár og síðast í gær var ég að baka vöfflur og búa til kakó hjá Rauða krossinum til að safna pening fyrir þá sem hafa lítið á milli handanna.“

Hvers vegna ákvaðst þú að gerast sjálfboðaliði? „Ég elska að gleðja aðra, lífið er stutt og ekki tími fyrir annað en að vera glaður. Margir segja að ég hafi mikla orku og sé gleðigjafi sem kemur sér mjög vel í sjálfboðaliðastarfi. Ég nýti sjálfboðaliðastarf til þess að gleðja mig sem og aðra.“

Hvað er það sem drífur þig áfram sem sjálfboðaliði? „Það helsta er að hitta fólk, sjá gleðina hjá því. Það er svo skemmtilegt að gefa frá sér bros og njóta lífsins. Allir eiga við einhver vandamál að stríða og mér finnst gaman að geta hjálpað öðrum með því að gefa bros, það er mikilvægt.“

Hver er ávinningur þess að vera sjálfboðaliði? „Að sjá bros fólks og njóta lífsins.“

Þín skilaboð til annarra sem hafa áhuga á að sinna sjálfboðaliðastarfi? „Ég mæli með að fólk komi og kynni sig, mæti á staðinn, sé það sjálft, geri sitt besta og geri það sem það getur. Þetta er mjög skemmtilegt, sérstaklega að vera í kringum fólk, það gefur manni svo mikið. Stundum er ég spurð hvernig ég fari að því að gera allt sem ég geri en málið er að ég held bara áfram í jákvæðninni. Ef við brosum þá smitar það frá sér.“  

Þín ráð til annarra félaga til þess að fjölga sjálfboðaliðum? „Gefa sér tíma og hvetja fólk til þess að taka þátt. Að lokum er gott að minna á að það þurfa allir að hreyfa sig. Bara það eitt að fara út í ferska loftið og hitta annað fólk gefur manni svo mikið. Margir eiga það til að segjast ekki hafa tíma til þess að hreyfa sig eða taka þátt í sjálfboðaliðastarfi en þá er bara um að gera að búa sér til tíma.“