Rósa: „Mér finnst æðislegt að vera sjálfboðaliði“
Rósa Marinósdóttir var heiðruð vegna skeleggrar framgöngu sem sjálfboðaliði á Unglingalandsmótinu í Borgarnesi 2016. Hún gekk tugi kílómetra á hverjum degi. Öll fjölskylda Rósu vann á mótinu. Sjálf vinnur hún fleiri daga á ári sem sjálfboðaliði en ekki og telur að áhuginn á starfi sjálfboðaliða gangi í erfðir.
„Mér finnst æðislegt að vera sjálfboðaliði. Ég kynntist Ungmennafélaginu Reyni þegar ég var lítil í sveit á Stóru-Hámundarstöðum á Árskógsströnd og æðsti draumur minn var að komast í ungmennafélag,“ segir Rósa Marinósdóttir.
Rósa hefur verið sjálfboðaliði undir merkjum Ungmennafélagsins Íslendings og Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB) síðan árið 1980 eða í samfleytt 37 ár. Tekið var eftir því á Unglingalandsmótinu í Borgarnesi í fyrra hversu ötul Rósa var á frjálsíþróttavellinum og stýrði þátttakendum af krafti. Rósa gekk rúmlega 20 kílómetra á dag alla mótsdagana.
Er alltaf að vinna að einhverju
Rósa er uppalin á Akureyri. Þar var ekkert ungmennafélag í æsku hennar. Stóru-Hámundarstaðir eru á svæði Ungmennafélagsins Reynis og þar dreymdi hana um að gerast félagsmaður. Rósa fluttist 25 ára gömul að Hvanneyri í Borgarfirði árið 1980. Þar varð draumurinn að veruleika þegar henni var boðið að ganga í Ungmennafélagið Íslending. „Ég hef verið sjálfboðaliði alveg síðan ég gekk í ungmennafélagið,“ segir Rósa.
Ungmennafélagið Íslendingur rekur Hreppslaug í Skorradal en síðan hefur hún tekið þátt í leiksstarfi félagsins og verið dómari á mörgum mótum. Starfið vatt upp á sig og Rósa hefur unnið lengi fyrir UMSB og Frjálsíþróttasamband Íslands víða um land, meðal annars sem dómari. Rósa hefur líka unnið mikið fyrir körfuknattleiksdeild Skallagríms í Borgarnesi og unnið á nytjamarkaði sem félagið hefur starfrækt í Brákarey frá árinu 2009. Þessu til viðbótar er Rósa formaður kvenfélagsins á Hvanneyri. „Þar er unnið heilmikið starf,“ og henni telst til að hún vinni fleiri vikur á ári sem sjálfboðaliði en ekki.
Rósa þarf ekki að hugsa sig lengi um, spurð að því hvað sjálfboðaliðastarf gefi henni. „Það er ánægjan og samskiptin við annað fólk. Þetta er mikið samneyti við fólk með svipaðan hugsunarhátt,“ segir hún. „Þetta er svakalega gaman. Samfélagið þarf á þessu að halda. Íþróttahreyfingin öll og félagsstarfið gengi heldur ekki nema fyrir okkur, sjálfboðaliðana.“
Viltu verða sjálfboðaliði?
Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Egilsstöðum dagana 3.-6. ágúst 2017. Við erum að leita sjálfboðaliða sem vilja vinna með öðru fólki sem finnst gaman að gefa af sér við þetta skemmtilega mót.
Nú er hægt að skrá sig á netinu.
Viltu verða sjálfboðaliði?
Smelltu hér og skráðu þig.