Fara á efnissvæði
19. ágúst 2025

Rúmlega þúsund sprettu úr drulluspori

Rúmlega 1.100 manns á öllum aldri tóku þátt í Drulluhlaupi Krónunnar í Mosfellsbæ á laugardag. Að Drulluhlaupinu standa Ungmennafélag Íslands, Krónan og Ungmennafélagið Aftureldingu (UMFA). 

„Drulluhlaupið sannar enn og aftur að fólk leitar eftir fjölbreyttum leiðum til að stunda íþróttir eitt og með öðrum og á eigin forsendum. Hér er því ákalli svarað,“ segir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, um Drulluhlaup Krónunnar sem fram fór í Mosfellsbæ á laugardag. 

Um 1.100 þátttakendur á öllum aldri voru skráðir til leiks í viðburðinum, sem verður að segjast að er einn af þeim skítugri sem í boði eru hér á landi. Í Drulluhlaupinu fara þátttakendur 3,5 kílómetra langa leið sem er vörðuð fjölmörgum hindrunum, vöðum, vötnum og lækjum sem þarf að komast yfir, risastórum rörum sem þarf að troðast í gegnum og lágum netum sem þarf að skríða undir – í drullu. 

Við endamarkið fengu þátttakendur viðurkenningu og gátu fengið sér holla og góða næringu af Krónuhjólinu ásamt því að skola af sér og geta farið í sund. Leikkonan og lífskúnstnerinn Sandra Barilli ásamt plötusnúði héldu uppi stuði við rásmarkið allan tímann og tóku á móti þátttakendum sem komu í mark. Ekki var tímataka í hlaupinu enda áherslan öll á að fólk njóti viðburðarins. 

„Það var afar gaman að sjá gleðina og brosin hjá þátttakendum sem komu í mark eftir að hafa unnið saman að því að komast yfir hindranir á drullubrautinni,“ heldur Jóhann Steinar áfram. 

Hlaupið var haldið í fjórða sinn á laugardaginn og hefur Krónan stutt við verkefnið frá hugmynd að framkvæmd þess. 

Teitur Ingi Valmundsson, formaður frjálsíþróttadeildar Aftureldingar, segir Drulluhlaupið sameina bæjarbúa og efla bæði samstöðu og lýðheilsu. 

„Drulluhlaupið er ótrúlega skemmtilegur viðburður sem sameinar okkur í Mosfellsbæ á einstakan hátt. Það er dásamlegt að sjá yfir þúsund manns mæta í hlaupið, börn og foreldra, vini og fjölskyldur, og njóta þess að hoppa í drullupolla, vaða yfir tjarnir, mýrar og drullusvað og leysa þrautir saman. Brosin og hlátrasköllin á öllum segja allt sem segja þarf – þessi barnslega, fölskvalausa gleði sem allir sýna er svo smitandi. Fyrir okkur í Aftureldingu skiptir þetta miklu máli, ekki bara sem fjáröflun heldur líka sem leið til að efla hreyfingu, samstöðu og gleði í bæjarfélaginu okkar.“

 

Hér má sjá nokkrar myndir frá hlaupinu. 

Enn fleiri myndir eru á myndasíðum UMFÍ. Endilega notið myndir að vild en ef tök eru á er gaman að merkja þær UMFÍ:

Myndasafn á Flickr

Myndasafn á Facebook