Fara á efnissvæði
14. apríl 2023

Sæunn, Erla og Ragnar sæmd starfsmerki UMFÍ

„Þetta var alveg geggjað, ég var svo stolt og ánægð, klökk,“ segir Erla Þórey Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Ungmennasambands Vestur-Skaftafellssýslu (USVS), sem er sambandsaðili UMFÍ. Þórey, ásamt þeim Sæunni Káradóttur og Ragnari Þorsteinssyni voru sæmd starfsmerki UMFÍ á ársþingi USVS sem fram fór í fallegu vorveðri í Vík í Mýrdal á miðvikudag.

Ragnheiður Högnadóttir, formaður framkvæmdastjórnar UMFÍ og stjórnarmaður í UMFÍ, afhenti starfsmerkin.

Erla segir þingið hafa verið gott og gengið vel. Það var hefðbundið og ágæt mál á dagskrá, þar á meðal komið með tillögu um að verðlauna sjálfboðaliða ársins á næsta þingi USVS.

Á þingið mættu 26 þingfulltrúar frá sex aðildarfélögum USVS af þeim 30 sem rétt höfðu til setu á þinginu.

Litlar breytingar urðu á stjórn USVS. Ragnar, einn þriggja sem hlaut starfsmerki UMFÍ, hætti í stjórn USVS og kom í hans stað Fanney Ólöf Lárusdóttir. Hún var áður í varastjórn. Í hennar stað kom Þuríður Lilja Valtýsdóttir ný inn í varastjórnina.

Af öðrum heiðrunum má nefna að Sigmar Helgason og Sveinn Þorsteinsson fengu gullmerki ÍSÍ, Egill Waagfjörð Atlason var útnefndur Íþróttamaður ársins og Sigurður Gísli Sverrisson efnilegasti íþróttamaður USVS.  

Á þinginu voru þingfulltrúar og félagsmenn hvattir til þátttöku á mótum UMFÍ í sumar, sérstaklega á Unglingalandsmót UMFÍ á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina og Landsmót UMFÍ 50+ sem fram fer í Stykkishólmi um Jónsmessuna.

 

 

Fram kom á þinginu að USVS ætli að gefa þátttakendum á Unglingalandsmótinu peysur til að vera í á mótinu. Sanngjarnt sé sömuleiðis að yngri þátttakendur fái líka peysur því það efli líðsheildina svo keppendur verði áberandi á mótinu.

Þátttakendur USVS hlutu einmitt Fyrirmyndarbikar UMFÍ á síðasta Unglingalandsmóti UMFÍ sem fram fór á Selfossi í fyrra. Erla Þórey segir félagsmenn afar stolta yfir því enda formaðurinn hrósað öllum sem að því komu.

Sú nýbreyttni var að Árskýrsla USVS var gefin út í rafrænu formi. Hana má nálgast hér:

Ársskýrsla USVA

 

Myndir frá þingi USVS