Sambandsþing UMFÍ um helgina
„Það hafa orðið miklar framfarir í íþróttahreyfingunni síðustu misserin, stór skref hafa verið stigin. Það er alveg ljóst af þátttöku á þinginu okkar að Ungmennafélagsandinn er síungur og eftirsóttur og margir vilja vera með. Ég skynja meiri áhuga hjá fólki á því að vinna saman í hreyfingunni,“ segir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður Ungmennafélags Íslands.
Sambandsþings UMFÍ hefst í dag og mun það standa yfir á Hótel Geysi í Haukadal um helgina.
Ljóst er að þetta verður eitt af fjölmennari þingum í sögu UMFÍ en um 180 manns hafa boðað komu sína á setningu þess föstudagskvöldið 20. október.
Formaðurinn sjálfkjörinn
Jóhann Steinar er sjálfkjörinn í embætti formanns. En þrettán keppa um þau tíu sæti sem í boði eru í stjórn og varastjórn UMFÍ og stefnir því í spennandi kosningar. Fjölgunin endurspeglar mikla breytingu innan íþróttahreyfingarinnar og fjölgun félaga.
Mikið hefur gerst í hreyfingunni síðustu árin. Fyrir fjórum árum var samþykkt umsókn þriggja íþróttabandalaga að UMFÍ. Það er Íþróttabandalags Reykjavíkur, Íþróttabandalags Akureyrar og Íþróttabandalags Akraness sem urðu aðilar. Í fyrra var það sögulega skref svo stigið að Íþróttabandalag Hafnarfjarðar varð sambandsaðili UMFÍ. Við það eru öll íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu innan UMFÍ og næstum öll íþróttafélög landsins.
Ýmsar fleiri breytingar hafa orðið. Til viðbótar flutti þjónustumiðstöð UMFÍ inn í íþróttamiðstöðina í Laugardal fyrr á árinu og deilir sama húsi í fyrsta sinn með ÍSÍ og fleirum.
Í kjöri til aðalstjórnar eru eftirfarandi einstaklingar:
- Ásgeir Sveinsson – Héraðssambandinu Hrafna-Flóka.
- Guðmundur G. Sigurbergsson – Ungmennasambandi Kjalarnesþings.
- Gunnar Þ. Gestsson – Ungmennasambandi Skagafjarðar.
- Gunnar Gunnarsson – Ungmenna- og íþróttasambandi Austurlands.
- Helgi S. Haraldsson – Héraðssambandinu Skarphéðni.
- Kristín Thorberg – Ungmennasambandi Eyjafjarðar.
- Málfríður Sigurhansdóttir – Íþróttabandalagi Reykjavíkur.
- Ragnheiður Högnadóttir – Ungmennasambandi Vestur-Skaftafellssýslu.
- Sigurður Eiríksson – Ungmennasambandi Eyjafjarðar.
-
Sigurður Óskar Jónsson – Ungmennasambandinu Úlfljóti.
- Guðmunda Ólafsdóttir - Íþróttabandalagi Akraness.
- Hallbera Eiríksdóttir - Ungmennasamband Borgarfjarðar.
- Rakel Másdóttir - Ungmennasambandi Kjalarnesþings.