Fara á efnissvæði
31. mars 2025

Samþykkt að halda þing HSÞ annað hvert ár

Samþykkt var samhljóða á ársþingi Héraðssambands Þingeyinga (HSÞ) á dögunum að halda það framvegis annað hvert ár í stað þess að gera það á hverju ári.

Alls mættu 47 fulltrúar aðildarfélaga HSÞ á þingið. 

Þingið var hefðbundið að flestu leyti. Fjárhagsáætlun var samþykkt með þeirri breytingu að framlag til Fræðslu- og styrktarsjóðs var hækkað um eina milljón króna. Það leiðir hins vegar til hallareksturs HSÞ um sömu upphæð. Fram kom á fundinum að fjárhagsleg staða HSÞ er góð og var því rými til að samþykkja hækkunina. 

Jón Sverrir Sigtryggsson, sem var endurkjörinn sem formaður. Hann tók við því embætti árið 2022. Önnur í stjórn eru Sigfús Hilmir Jónsson, Sigurbjörn Veigar Friðgeirsson, Jónas Halldór Friðriksson og Bergþóra Th. Þórarinsdóttir. Hulda Þórey Garðarsdóttir gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Í varastjórn eru þær Hulda Kristín Baldursdóttir og Dagbjört Aradóttir. 

Haukur Valtýsson, fyrrverandi formaður UMFÍ, var fulltrúi UMFÍ á þinginu. Þar voru jafnframt Þóra Pétursdóttir, svæðisfulltrúi íþróttahéraðanna á Norðurlandi eystra, og Viðar Sigurjónsson, sérfræðingur á stjórnsýslusviði ÍSÍ.