Segir gleðina halda fólki lengur í íþróttum
„Það er mikilvægt að hafa gaman af íþróttum, að njóta þess að hreyfa sig. Það eykur einkum líkurnar á því að unglingar haldi áfram í íþróttum. Áhrifin geta haft jákvæð áhrif fyrir mannkynið,“ segir Kanadamaðurinn Jeffrey Thomson. Hann hefur unnið í um 40 ár með ungmennum og helgað líf sitt gerð fræðsluefnis og aðferða sem stuðla eiga að betra utanumhaldi með ungmennum og íþróttaiðkunum þeirra.
Jeffrey Thomson hefur um árabil verið þekktur á sviði fimleika fyrir ráðgjafarstörf sín. Hann hefur unnið mikið fyrir Alþjóðafimleikasambandið (FIG). Hann kom meðal annars hingað til lands í ágúst í fyrra og hélt fyrirlestur um hið einstaka viðfangsefni að vinna með unglingum, áskoranir og úrlausnir.
Jeffrey hefur í gegnum tíðina ferðast þvert og endilangt um heiminn, bæði fyrir fimleikaheiminn og sem ráðgjafi. Í starfi hans felst meðal annars að hjálpa stjórnvöldum við að byggja upp fræðsluáætlanir og stefnur sérsambanda víða um heim sem stuðla eiga að betra utanumhaldi íþróttaiðkunar ungmenna. Þegar ritstjóri Skinfaxa náði tali af Jeffrey um miðjan nóvember var hann að undirbúa sig fyrir fimleikamót í Þýskalandi.
Þekktu líkama þinn
Jeffrey Thomson segir horfurnar í lýðheilsu um heim allan ekki upp á marga fiska. Fólki, sem glímir við ofþyngd og lífsstílstengda sjúkdóma, fjölgar stöðugt. Það er sístækkandi baggi á heilbrigðiskerfum helstu landa, ekki aðeins þeirra sem alla jafna teljast til Vesturlanda heldur einnig í Rússlandi, austur í Kína og fleiri löndum. Kostnaður í kerfunum eykst, álagið sömuleiðis og óheilbrigður lífsstíll hefur íþyngjandi áhrif á kerfið allt. Þetta hefur neikvæð áhrif á efnahag viðkomandi þjóða enda verður rekstur heilbrigðiskerfis dýrari vegna lífsstílstengdra vandamála. Úr þessu þarf að bæta, segir hann.
Jeffrey segir úrlausn ofangreinds vandamáls áskorun framtíðarinnar. Lausnina sér hann í því að gera íþróttir skemmtilegri og auka líkams- og hreyfigreind iðkenda, það er að segja að auka þekkingu þeirra á því hvað þeir geti og hvernig þeir geti notað líkama sinn. Þetta telur hann geta fjölgað þeim sem stundi íþróttir fram á fullorðinsár og líka fjölgað í hópi fullorðinna iðkenda.
Þótt sérsvið Thomsons sé fimleikar vill hann ekki gera of mikið úr þeirri grein sem lyklinum að líkamsgreind. Kostinn við fimleika segir hann engu að síður vera þann að greinin snúist um liðleika, líkamslæsi, samhæfingu, styrk og rýmisskynjun. Þá séu í fimleikum markvisst kennd atriði sem bæti styrk, jafnvægi, sveigjanleika og auki líkamsgreind iðkenda.
„Það skiptir ekki máli hvaða íþrótt barnið eða unglingurinn stundar. Kosturinn við fimleika er sá að þar öðlast iðkendur hæfni til að læra á líkama sína í gegnum leik. Þeir þurfa að reyna á sig. Við það verður námið skemmtilegt og næstum ómeðvitað. Þetta er auðvitað hægt að gera í fleiri greinum eins og parkour sem reyndar er grein skyld fimleikum. Eftir því sem börnin þroskast eykst auðvitað hættan á að þau hætti í íþróttum. Það gerist iðulega í kringum eða eftir 14 ára aldurinn. Ástæðurnar eru eðlilegar. Þá á námið huga þeirra, þau eru farin að hugsa um annað og eiga sér fleiri áhugamál. Það sem við þurfum að gæta – og líkamsgreind úr æsku getur stuðlað að – er að ungmenni hugi að heilsunni, lifi heilbrigðu lífi og haldi helst áfram í íþróttum með einhverjum hætti. En það sem skiptir máli er að börn og ungmenni læri á líkama sinn, öðlist líkamsgreind, áður en þau fara út á alvarlegri og afreksmiðaðri brautir í íþróttum,“ segir Thomson.
Kommúnistaríkin til fyrirmyndar
Eins og áður segir hefur Jeffrey Thomson unnið lengi að uppbyggingu fræðsluáætlana fyrir stjórnvöld. Slíkt hefur hann gert bæði í Kína og í fyrrum Sovétríkjunum. Hann segir barna- og unglingastarf þar til fyrirmyndar þegar kom að innleiðingu íþrótta í skólakerfinu.
„Mér sýnist að þar sem miðstýrt vald er við lýði séu möguleikarnir meiri. Ég hef unnið lengi með stjórnvöldum í Kína. Þar gerir fólk sér líka grein fyrir vandanum. Stjórnvöld þar standa frammi fyrir því að á næstu árum muni einn milljarður íbúa hreyfa sig minna og eiga á hættu að búa við mun verri lífsgæði og verða byrði á heilbrigðisþjónustunni. Stjórnvöld í Kína ætla að spyrna á móti þessari þróun og innleiða í skólakerfið úrræði sem eiga að fjölga þeim sem hreyfa sig og eiga að auka líkamsgreind þeirra. Kínverjar vona að þetta skili því að færri landar þeirra þjáist af ofþyngd og heilsubresti fyrir aldur fram,” segir Jeffrey Thomson og ítrekar að þær þjóðir sem gjarnan er minnst með beiskju hafi margar staðið sig vel þegar kom að hreyfingu barna og ungmenna. Austur-Þjóðverjar hafi staðið sig með prýði, ekki síður en Sovétmenn sem innleiddu ýmsar íþróttagreinar, þar á meðal fimleika, í námskrár grunnskóla. „Stjórnvöld í Austur-Evrópu gerðu sér grein fyrir mikilvægi líkamsgreindar fyrir löngu,” segir Jeffrey.
Ungmennin þurfa að fá að leika sér
Jeffrey segir að mörgum finnist erfitt og jafnvel streituvaldandi að vinna með unglingum. Hann segir það eðlilegt. „Sýnt hefur verið fram á að heili ungmenna er í sífelldri mótun og mikið um að vera, bæði í höfðinu á þeim og í líkamanum enda hormónarnir á fullu. Það er erfitt að vera unglingur enda hafa þeir litla stjórn á líkömum sínum, þeir hafa ónákvæma rýmisskynjun og margir eru klaufalegir í hreyfingum. Þetta á sérstaklega við um stráka því að heili þeirra er að mótast fram yfir tvítugt og því þurfa þjálfarar að vera þolinmóðir, sérstaklega í samskiptum sínum við stráka,“ segir Jeffrey og rifjar upp þegar hann var staddur í fimleikasal í Moskvu um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Í salnum var hópur unglingsdrengja að hamast hver í öðrum og leika sér. „Það fer sú saga af sovéskum þjálfurum að þeir séu strangir og harðir við iðkendur. Ég spurði þess vegna þjálfarann hvað þessir drengir væru að gera þarna. Hann svaraði: „Þetta eru unglingar. Það á að láta þá vera og leyfa þeim að leika sér þar til þeir róast.“
Breyta íþróttum til að fjölga iðkendum
Það er erfitt að ræða við Kanadamann án þess að minnast á íshokkí sem kalla má þjóðaríþrótt þar í landi. Greinin hefur átt betri daga, liðum hefur gengið illa og iðkendum fækkað. Fækkunin skýrist ekki síst af því að mjög kostnaðarsamt er að æfa íshokkí og það er orðið vart nema á færi efnaðra foreldra að leyfa börnum sínum að æfa og keppa í íshokkí að einhverju marki.
„Um nokkurt skeið fjölgaði nýjum iðkendum í íshokkí mjög hægt. Þá var brugðið á það ráð að prófa að bjóða upp á minni velli og styttri leiktíma, jafnvel upp á nokkrar mínútur. Þessi tilraun skilaði góðum árangri. Mönnum líkaði vel að taka þátt í styttri leikjum. Þeir skemmtu sér líka vel og fleiri fóru að æfa íshokkí,“ segir Jeffrey og nefnir þessa tilraun í heimalandi sínu sem frábæra tilraun til að auka gleði og ánægju í íþróttaiðkun. „Það er mikilvægt að hafa gaman af því að stunda íþróttir. Þegar iðkendur skemmta sér stunda þeir greinina lengur – jafnvel alla ævi.“
Viðtalið við Jeffrey Thomson birtist í síðasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Allt blaðið er hægt að lesa á vef www.umfi.is: