Síðasti dagurinn til að skrá sig á Landsmót UMFÍ 50+
Síðasti dagurinn er í dag til að skrá sig á Landsmót UMFÍ 50+ sem fram fer í Stykkishólmi um næstu helgi. Ertu búin/n að skrá þig og þína?
Mótið er haldið í samstarfið við Héraðssamband Snæfellsness- og Hnappadalssýslu (HSH) og Stykkishólm og hafa Hólmarar lagt heilmikið á sig til að gera mótið að því besta í heimi. Sömu helgi verða Danski dagar í Stykkishólmi. Búast má við miklum mannfjölda í bænum, fjöri á tjaldsvæðinu og heilmiklu húllumhæi á öllum keppnissvæðum.
Keppni á Landsmóti UMFÍ 50+ hefst föstudaginn 23. júní og standa leikar í fjölda greina fram á sunnudag. Á kvöldin verður hægt að skreppa á tónleika með Stjórninni, fara á matar- og skemmtikvöld og skoða heilmargt í Stykkishólmi í tengslum við Danska daga.
Mót fyrir fólk á öllum aldri
Þótt Landsmót UMFÍ 50+ sé hugsað fyrir fólk sem verður fimmtugt á árinu og eldri þátttakendur þá geta allir sem viljað tekið þátt í mörgum keppnisgreinum.
Dagskrá mótsins er fjölbreytt og því ættu flestir að finna eitthvað við sitt hæfi.
Á meðal greina í boði eru:
Boccía, bridds, frjálsar íþróttir, golf, götuhlaup, hestaíþróttir, hjólreiðar, körfubolti 3:3, pútt, ringó, skák, stígvélakast og sund.
Að auki geta allir sem vilja spreytt sig í eftirfarandi:
Badminton, hlaupaskotfimi (biathlon), borðtennis, frisbígolf, hádegisjóga, petanque, pílukast og fleira.
Tveir aðgangsmiðar eru í boði: Hvítt armband er fyrir 50 ára og eldri og gildir í allar greinar. Rautt armband er fyrir 18 og eldri og gildir það í tilteknar greinar.
Allt um mótið á og viðburðina á því á www.umfi.is