Sigmari finnst frábært að vera sjálfboðaliði
„Ég hef ekki verið sjálfboðaliði á Unglingalandsmóti áður en mun eflaust gera það næstu árin. Þetta er frábært framtak,“ segir Sigmar Vilhjálmsson. Hann var sjálfboðaliði á Litlu Vilhjálmsleikunum sem fram fóru á Vilhjálmsvelli á Egilsstöðum á laugardag á Unglingalandsmóti UMFÍ. Leikarnir eru frjálsíþróttagreinar fyrir 10 ára og yngri.
Vilhjálmsleikurinn er nefndur í höfuð föður Sigmars, íþróttakappans Vilhjálms Einarssonar, sem hlaut silfur á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu fyrir rúmum 60 árum.Sigmar kom á Unglingalandsmót UMFÍ með tveimur sona sinna og tveimur drengjum til viðbótar. Annar sona hans tók þátt í Vilhjálmsleikunum, sem eru frjálsíþróttaleikar fyrir 10 ára og yngri. Hinn sonur hans, sem er nýorðinn 11 ára, komst ásamt vini sínum í knattspyrnulið með öðrum.