Sjálfboðaliðar heiðraðir á aðalfundi Keflavíkur
Kára Gunnlaugssyni var veitt gullheiðursmerki á aðalfundi Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags sem fram fór í gærkvöldi. Kári hefur starfað lengi fyrir íþróttahreyfinguna, var m.a. síðasti formaður Knattspyrnufélags Keflavíkur og leiddi með fleirum sameiningu sex félaga undir merkjum Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags í júní árið 1994. Tímamót urðu á fundinum en Kári, sem var varaformaður Keflavíkur, gaf ekki áfram kost á sér í stjórn félagsins eftir 29 ára setu.
Einar Haraldsson, formaður og framkvæmdastjóri Keflavíkur, afhenti Kára gullheiðursmerkið og þakkaði honum sérstaklega fyrir samstarfið í gegnum árin. Þeir Einar og Kári hafa fylgst að í gegnum árin en þeir voru formenn tveggja félaga af þeim sex sem stofnuðu Keflavík, íþrótta- og ungmennafélag fyrir að verða 30 árum.
Fjögur starfsmerki og meira til
Á fundinum voru jafnframt veitt fjögur starfsmerki UMFÍ. Þau hlutu hjónin Benedikta Benediktsdóttir og Björgvin Magnússon, Guðrún Jóna Árnadóttir og Ragnar Franz Pálsson. Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, var einn af gestum fundarins og afhenti starfsmerkin.
Til viðbótar hlotnaðist Ingvari Georgssyni sá heiður að fá starfsbikar Keflavíkur fyrir árið 2022. Hlaut hann viðurkenningarskjöld og bikar, sem UMFÍ gaf á sínum tíma.
Að síðustu hlaut Kristján Helgi Jóhannesson silfurheiðursmerki Keflavíkur.
Einar Haraldsson, framkvæmdastjóri og formaður Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags, afhenti allar viðurkenningar.
Um þau sem hlutu starfsmerkin
- Kári Gunnlaugsson hefur ætíð starfað mikið fyrir íþróttahreyfinguna. Hann þjálfaði yngri flokka KFK og árið 1985 var hann í knattspyrnuráði ÍBK til 1989. Árið 1991 er Kári kjörinn formaður KFK og var hann síðasti formaður félagsins. KFK var eitt af sex félögum sem sameinuðust undir merkjum Keflavíkur árið 1994. Kári hefur verið í aðalstjórn Keflavíkur frá upphafi og varaformaður Keflavíkur frá 1998 og til dagsins í dag eða 25 ár sem varaformaður og í heildina 29 ár í aðalstjórn Keflavíkur.
- Þau Benedikta og Björgvin hafa bæði starfað innan kvennaráðs knattspyrnudeildar Keflavíkur í um áratug. Þar af hefur Benedikta verið formaður deildarinnar í níu ár.
- Guðrún hefur starfað innan bæði sunddeildar og blakdeildar Keflavíkur í fimm ár í hvorri deild. Þar af hefur hún verið formaður blakdeildarinnar síðastliðin þrjú ár.
- Ragnar Franz hefur starfað innan skotdeildar Keflavíkur og þar af í stjórn deildarinnar í tíu ár.
- Ingvar Georgsson hefur unnið mikla sjálfboðaliðavinnu fyrir deildir félagsins og ávallt boðin og búinn og að koma og leggja félaginu eða deildum hjálparhönd. Hann ásamt fleirum hefur haldið utan um þorrablótið svo eitthvað sé upptalið.
- Kristján Helgi Jóhannsson hefur sömuleiðis unnið lengi innan Keflavíku. Hann hefur tekið að sér ýmis verkefni fyrir deildir félagsins og félagið, setið í stjórnum körfuknattleiksdeildarinnar og knattspyrnudeildar og séð um þorrablót Keflavíkur ásamt Ingvari og fleirum.
Fleiri myndir frá aðalfundinum