Fara á efnissvæði
04. mars 2020

Skarðsheiðarhlaup meðal keppnisgreina á Landsmóti 50+

„Undirbúningur gengur afar vel fyrir Landsmót UMFÍ 50+. Við erum reyndar á undan áætlun, búin að raða upp keppnisgreinum og sérgreinarstjórarnir eru klárir. Þarna ættu allir sem hafa gaman af því að hreyfa sig að finna eitthvað við sitt hæfi,“ segir Sigurður Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar. Hann og fleiri ungmennafélagar innan raða UMSB standa nú í ströngu við undirbúning mótsins sem haldið verður í Borgarnesi dagana 19.- 21. júní næstkomandi. 

Rætt er við Sigurð í nýjasta tölublaði Skessuhorns, sem kom út í dag.

 

Skemmtilegt mót í Borgarnesi

Landsmót 50+ hefur verið haldið árlega frá 2011. Það er fyrir þá sem verða fimmtugir á árinu og alla eldri. Mótið hefur verið haldið víða
um land og er þetta í fyrsta skipti sem það verður í Borgarnesi. Þar er frábær aðstaða til íþróttaiðkunar eins og sannaðist á unglingalandsmótinu sem þar var haldið fyrir nokkrum árum. Unglingalandsmótið verður einmitt haldið það aftur sumarið 2022. 

 

 

Á Landsmóti 50+ verður boðið upp á 18 greinar af ýmsum toga. Meðal þeirra verður boccia, bridds, frjálsar íþróttir, golf, hestaíþróttir, knattspyrna, körfubolti, línudans, pílukast, pútt, pönnukökubakstur, ringó, skotfimi, stígvélakast og sund. En einnig hlaup.

 

Hlaupið yfir Skarðsheiði

Skarðsheiðarhlaup ein af sérstöðum mótsins Meðal keppnisgreina á Landsmóti 50+ verður Skarðsheiðarhlaup. Þá verður hlaupið um Skarðsheiðarveg um 19,76 km langa hlaupaleið þar sem fylgt er greinilegum stígum. Hún er því þægileg yfirferðar þrátt fyrir nokkra hækkun. Einnig er hægt að stytta leiðina um 5 km með því að aka eftir sæmilegum malarvegi fyrsta spölinn og hlaupa þá tæplega 15 km í heildina.

Hlaupið hefst á Skorholtsmelum í Melasveit. Það endar svo við Hreppslaug í Skorradal. „Þetta er mjög falleg leið í björtu og góðu veðri og flestir ættu að komast þetta. Hlaupið getur verið svolítið erfitt í fyrstu. Leiðin upp er stutt því fljótlega fer að halla niður í móti,“ segir Sigurður sem þekkir hlaupaleiðina yfir Skarðsheiði vel enda hefur hún síðastliðin tvö ár verið einn af fjölmörgum viðburðum sem boðið er upp á í Borgarfirði í Hreyfiviku UMFÍ. Í þeirri viku fara þessa leið hlauparar jafnt sem gönguhópar og hjólreiðafólk. 

Skarðheiðarhlaupið er annað af tveimur hlaupum sem í boði verða á Landsmóti UMFÍ 50+ í Borgarnesi. Hitt er byggt á svokölluðum Flandraspretti, sem er 5 km götuhlaup og haldið einu sinni í mánuði í Borgarnesi. „Það skemmtilega við hlaupin er að fólk á öllum
aldri, sem treystir sér í þau geta tekið þátt, ekki aðeins þeir sem verða fimmtugir á árinu og eldri,“ segir Sigurður.

 

Nánar má lesa um mótið á vefsíðu UMFÍ undir flipanum Landsmót UMFÍ 50+

Lesa má betur um hlaupaleiðina og skoða kort af henni á vefsíðunni Fjallvegahlaup Stefáns

 

Hér að neðan má sjá myndir af þátttakendum í Skarðsheiðarhlaupi.