Fara á efnissvæði
13. nóvember 2023

Sköpum aðstæður fyrir íþróttafólk úr Grindvík

Frábært er að sjá viðbrögð íþrótta- og ungmennafélaga um allt land. Fjöldi þeirra hefur boðið iðkendum hjá Ungmennafélagi Grindavíkur að æfa endurgjaldslaust hjá sér, bæði á höfuðborgarsvæðinu en eins á fjarlægari stöðum.

Margir urðu að hverfa frá heimilum sínum með hraði. Marga vantar því íþróttabúninga, treyjur, buxur og skó og ýmislegt annað. Leita þarf lausna á þeim vanda þó svo að einhverjir komist inn á heimili sín í dag.

 

Þakklát fyrir alla aðstoð

Klara Bjarnadóttir, formaður Ungmennafélags Grindavíkur, segir bæjarbúa, iðkendur og forráðamenn þeirra, þjálfara og sjálfboðaliða félagsins afar þakkláta fyrir alla aðstoð íþróttafélaga landsins sem hafa lagt hönd á plóg.

Undanfarið og nú í morgun hefur verið rætt við ýmsa um það hvaða fyrirkomulag sé hentugast til þess að bregðast við aðstæðunum.

Niðurstaðan úr þeim samtölum er sú að hentugasta leiðin til þess að koma búnaði til iðkenda sé að þau félög sem hafa opnað dyrnar fyrir iðkendur Ungmennafélags Grindavíkur komi upp aðstöðu í andyri íþróttamannvirkja sinna. Þar geti fólk og fyrirtæki boðið föt og búnað og þeir iðkendur sem hyggjast mæta til æfinga ásamt forráðamönnum geta þá með einföldum hætti nálgast þann fatnað sem í boði er.

 

Hjálpumst að!

Fólk, fyrirtæki og íþróttafélög þar sem Grindvíkingar munu mæta til æfinga eru hvött til að snúa bökum saman og gefa það sem hægt er að sjá af til iðkenda frá Grindavík á öllum aldri. Við hjá UMFÍ höfum orðið vör við mikinn velvilja um allt land þannig að við mælum með þessu fyrirkomulagi.

Við viljum koma þessum samræmdu upplýsingum til skila frá UMF Grindavík til allra aðildarfélaga hreyfingarinnar, einfaldlega vegna þess að áreitið og velviljinn er svo mikill að þau ná ekki að svara öllum eins og staðan er nú.

„Við hjá UMFÍ vonum að fulltrúar allra félaga taki vel í þessa ósk UMF Grindavíkur. Við höfum fulla trú á að svo verði, því samhugurinn er ótrúlegur. Við viljum hrósa aðildarfélögunum. Samstaðan er í anda þess sem félögin hafa brugðist við nú þegar. Það er í sönnum ungmennafélagsanda,‟ segir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ.