Fara á efnissvæði
14. nóvember 2022

Skólabúðir á Reykjum eru í sífelldri þróun

UMFÍ tók við rekstri Skólabúðanna á Reykjum í Hrútafirði með stuttum fyrirvara í haust. Bretta þurfti því upp ermar til að ráðast í umfangsmiklar endurbætur á húsnæði Skólabúðanna. Mikil aðsókn er bæði í Skólabúðirnar á Reykjum og Ungmennabúðir UMFÍ á Laugarvatni. Færri komast að en vilja.

„Lífið er í fullum gangi bæði fyrir norðan og sunnan. Þrátt fyrir að við hefðum frekar stuttan fyrirvara til að undirbúa skólaárið á Reykjum lögðust allir á eitt um að láta þetta ganga upp. Það tókst og allt hefur gengið vel í Skólabúðunum,“ segir Sigurður Guðmundsson, forstöðumaður Ungmennabúða UMFÍ á Laugarvatni og Skólabúðanna á Reykjum í Hrútafirði. Skólabúðir höfðu verið starfræktar á Reykjum um árabil en sveitarstjórn Húnaþings vestra auglýsti í mars á þessu ári eftir nýjum samstarfsaðila um rekstur þeirra. UMFÍ svaraði kallinu og skrifuðu þær Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, og Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, þá sveitarstjóri, undir rekstrarsamning í ágúst.

 

 

Í samningnum kemur meðal annars fram að í búðunum verði unnið eftir Heimsmarkmiðum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og aðalnámskrá grunnskóla. Þá verða saga og atvinnuhættir á landsbyggðinni kynnt fyrir nemendum með skipulagðri safnakennslu í samstarfi við Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna.

 

 

Stefnan var strax sett á að UMFÍ tæki við rekstri Skólabúðanna á  Reykjum um haustið. Allt var sett á fullt, enda ljóst að gera þyrfti gríðarlegar umbætur á húsnæðinu og húsgögnum. Ermar voru brettar upp og ráðist í verkið af miklum krafti.

Fyrstu nemendurnir komu síðan í Skólabúðirnar á Reykjum þegar skólaárið hófst í lok ágúst.

 

 

Sigurður segir aðsóknina afar mikla og allt hafi gengið vel þrátt fyrir stuttan aðdraganda. „Þetta var auðvitað stuttur fyrirvari og þess vegna má alveg líta á Reyki sem þróunarferli. Við aðlögum okkur eftir hverjum hópi og starfsfólki og komum til móts við alla og erum að setja brag UMFÍ í meiri mæli á starfið. Við verðum að gefa okkur tíma til að móta starfið og ná því í þann fasa sem við viljum hafa það í. Þeir nemendur og starfsfólk skólanna sem hafa komið til þessa hafa sýnt þolinmæði og skilning á þessu. En þau sem koma eru í skýjunum yfir því hvað þetta er frábært. Af því að hér er ungmennafélagsandinn leiðarljósið gengur allt miklu betur – ekki síst þar sem við erum líka með gott starfsfólk á báðum stöðum. Það gerir gæfumuninn,“ segir hann og bætir við að aðsóknin í bæði Skólabúðirnar á Reykjum og í Ungmennabúðirnar á Laugarvatni sé gríðarlega mikil, færri komist að en vilji.

 

Mikil ánægja með dvölina!

Í lok hverrar viku fá nemendur og kennarar tækifæri til að segja frá upplifun sinni bæði í Skólabúðunum og Ungmennabúðunum. Kátína er greinilega mikil og upplifunin góð.

Dæmi um viðbrögð:

Skólabúðirnar á Reykjum eru fyrir nemendur í 7. bekk grunnskóla, sem dvelja þar fimm daga í senn. Rúm eru fyrir um 120 nemendur og koma því 3.200 nemendur af öllu landinu þetta skólaárið í búðirnar bæði fyrir og eftir áramót. Ungmennabúðir UMFÍ á Laugarvatni eru fyrir nemendur í 9. bekk grunnskóla og dvelja þeir þar í jafn langan tíma. Pláss er fyrir um 80 nemendur og koma því um 2.000 nemendur af öllu landinu í búðirnar.

Um fyrirspurnir og bókanir sér Sigurður Guðmundsson forstöðumaður. Sími 861 3379. Netfang siggi@umfi.is.

Mikið pláss

UMFÍ hefur yfir töluverðu húsnæði að ráða bæði á Reykjum og Laugarvatni. Eitt hús er á Laugarvatni auk aðstöðu í sundlaug og íþróttahúsi, sem framkvæmdir hafa staðið yfir í. Til samanburðar eru fjögur hús á Reykjum, þar af tvö undir heimavistir, stórt mötuneyti, íþróttahús, sundlaug og ýmis önnur aðstaða.

Forsvarsfólk aðildarfélaga UMFÍ og fleiri geta leigt aðstöðu bæði í Skólabúðunum á Reykjum og í Ungmennabúðum UMFÍ á Laugarvatni. Búðirnar á Laugarvatni hafa verið einkar vinsælar til útleigu í sumar. Þar voru m.a. æfingabúðir Íþróttaakademíunnar og ýmsir íþróttatengdir viðburðir, sumarbúðir Íþróttasambands fatlaðra og sumarbúðir KVAN.

 

Fjallað er um Ungmennabúðir UMFÍ og Skólabúðirnar á Reykjum í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. 

Hægt er að lesa blaðið allt á umfi.is

Lesa tímarit UMFÍ