Fara á efnissvæði
22. apríl 2024

Skráning hafin í Forsetahlaup UMFÍ

Skráning er hafin í Forsetahlaup UMFÍ sem fram fer á Álftanesi fimmtudaginn 9. maí næstkomandi. Þetta er Uppstigningardagur og því allir í frí að skemmta sér. Nóg verður um að vera á Álftanesi því þennan sama dag fer þar fram bæjarhátíðin Forsetabikarinn.

Þetta er í þriðja sinn sem Forsetahlaup UMFÍ fer fram. Það fór fyrst fram á Álftanesi í september árið 2022 og á Patreksfirði í sama mánuði í fyrra. Nú hefur það verið fært mun fyrr í dagatalinu enda forsetakosningar í byrjun júní og hefur Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ákveðið að gefa ekki kost á sér að nýju. 

Guðni hefur tekið virkan þátt í Forsetahlaupi UMFÍ og hljóp báðar vegalengdirnar sem í boði voru á Álftanesi í fyrsta hlaupinu. Þá hljóp fólk á öllum aldri.

Gríðarleg eftirvænting var þegar hlaupið fór fram á Patreksfirði í fyrra. Þátttakendur voru um 70 talsins, sem jafngildir um 10% af íbúum Patreksfjarðar. Hlauparar komu víða að til að hlaupa með forsetanum, flestir úr Vesturbyggð en líka fólk frá Súðavík, Ísafirði og Hnífsdal. 

 

Vegalengdir, staðsetning og tímasetningar
Í ár fer viðburðurinn fram á Álftanesi fimmtudaginn 9. maí (Uppstigningardag) á sama tíma og fjölskylduhátíðin Forsetabikarinn. Viðburðurinn er haldinn í samstarfi við Embætti forseta Íslands, Ungmennafélag Álftaness og Hlaupahóp Álftaness.

Upphitun hefst klukkan 10:00 við Álftaneslaug. Ræst verður af stað í hlaupið klukkan 10:30.

Hlaupavegalengd er 5 km.

 

Hlaupaleið
Upphaf og endir hlaupsins er á stíg norðan megin við Álfaneslaug. Hlaupið er í átt að Breiðamýri og beygt er til vinstri inn á Breiðamýrina. Hlaupið er suður Breiðamýrina, þar er beygt til hægri við Suðurnesveg. Hlaupið er að gatnamótum við Höfðabraut og þar er farið til vinstri áfram veginn. Rétt eftir innkeyrsluna að Vestari-Skógartjörn er snúið við og hlaupið til baka sömu leið og komið var.

Hlaupið er fram hjá gatnamótunum við Breiðamýri og áfram að Bessastöðum. Hlaupið er að hringtorginu við Áftanesveg, þar er farið yfir hringtorgið og áfram inn á Bessastaðaveg. Þegar komið er að Bessastöðum er farið í gegnum hliðið og upp veginn, þar er beygt til hægri fyrir aftan Bessastaðakirkju og tekinn er hringur fyrir framan Bessastaðastofu og aftur út á veginn. Því næst er hlaupið sömu leið til baka Bessastaðaveg, í gegnum hliðið, yfir hringtorgið á Suðurnesveginn. Þar er beygt til hægri inn Breiðamýrina og til baka sömu leið að markinu við sundlaugina.

 

Skráning og verðlaun
Þátttökugjald er 1.500 kr. fyrir 18 ára og eldri og 500 kr. fyrir 17 ára og yngri.

Allir fá þátttökuverðlaun.

 

Skráðu þig hér í hlaupið!