Fara á efnissvæði
01. ágúst 2017

Spá fínasta veðri á Egilsstöðum

Davíð Þór Sigurðsson, formaður Hattar á Egilsstöðum, dró fána UMFÍ að húni í gær á einni af fánaborgunum sem búið er að koma fyrir á Egilsstöðum.

Undirbúningur er í fullum gangi fyrir Unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöðum, búið er að gera frábæra stíga fyrir keppni í fjallahjólreiðum og verið að marka tjaldstæðin fyrir keppendur og fjölskyldur þeirra sem sumar hverjar koma langt að. Mikið er í boði fyrir alla fjölskylduna á Unglingalandsmóti UMFÍ. Námskeið í leikjum, fimleikum, frisbí og margt fleira. Á kvöldin verða tónleikar með flottasta tónlistarfólki þjóðarinnar.

Veðurspáin er fín á Austurlandi um verslunarmannahelgina en Veðurstofa Íslands spáir úrvals keppnisveðri á Egilsstöðum, þurrki og logni.

Í Fréttablaðinu í dag er haft eftir Arnóri Tuma Jóhannssyni á Veðurstofunni, að búast megi við litlum vindi, mildu og fínu ágústveðri og smá sólarglætu.

„Það er fínt veður í kortunum fyrir landið allt, hægur vindur og lítil úrkoma.Hitinn verður yfir daginn um 10-16 stig þannig að þetta lítur mjög vel út,“ segir hann.

Ákveðið var í gær að halda skráningum áfram opnum fram á kvöld í dag, það er þriðjudagskvöldið 1. ágúst. Skráning fer fram á skráningarsíðu UMFÍ.


Hvað er í boði?
Unglingalandsmót UMFÍ er fyrir börn og unglingar á aldrinum 11 – 18 ára.

Í boði eru fjölbreyttar keppnisgreinar: Boccía, bogfimi, UÍA Þrekmót, fimleikalíf, fjallahjólreiðar, frisbígolf, frjálsar íþróttir, glíma, golf, götuhjólreiðar, hestaíþróttir, knattspyrna, kökuskreytingar, körfubolti, motocross, ólympískar lyftingar, rathlaup, skák og skotfimi, stafsetning, upplestur og sund.

Fötluðum einstaklingum er boðið að keppa í frjálsíþróttum og sundi.

Að auki er nóg í boði fyrir alla fjölskylduna.Yngri börnin fá að sjálfsögðu líka að spreyta sig við ýmsar íþróttir, fengið kennslu í mörgum og farið á tónleika á kvöldin.

Það kostar aðeins 7.000 krónur að skrá sig á Unglingalandsmót og fyrir það hægt að keppa í eins mörgum greinum og viðkomandi vill keppa í.


Skráningu á Unglingalandsmót UMFÍ lýkur á miðnætti 1. ágúst.

Skrá á Unglingalandsmót UMFÍ