Fara á efnissvæði
16. apríl 2024

Sprett úr spori í Forsetahlaupi UMFÍ

Forsetahlaup UMFÍ verður haldið á Álftanesi fimmtudaginn 9. maí næstkomandi. Þetta er Uppstigningardagur og fer fjölskyldu- og bæjarhátíðin Forsetabikarinn fram á sama tíma. 

Viðburðurinn er fyrir alla fjölskylduna og eða einstaklinga. Ekki verður um tímatöku að ræða því í hlaupinu verður áhersla á gleði, hreyfingu og samveru og enginn að velta fyrir sér hver koma fyrst í mark. 

Þetta er þriðja skiptið sem Forsetahlaup UMFÍ er haldið. Það var haldið í fyrsta sinn á Álftanesi í lok sumars 2022. Í fyrra fór það fram á Patreksfirði. 

 

Upphitun og hlaupaleið
Upphitun hefst kl. 10:00 og ræst verður af stað í hlaupið kl. 10:30.

Hlaupavegalengd er 5 km. 

Þátttakendur í Forsetahlaupi UMFÍ verða ræstir norðan megin við Álftaneslaug. Hlaupið er í átt að Breiðamýri og beygt er til vinstri inn á Breiðamýrina. Hlaupið er suður Breiðamýri, þar beygt til hægri við Suðurnesveg. Hlaupið er að gatnamótum við Höfðabraut og þar farið til vinstri áfram veginn. Rétt eftir innkeyrsluna að Vestari-Skógartjörn er snúið við og hlaupið til baka sömu leið og komið var. 

Hlaupið er fram hjá gatnamótunum við Breiðamýri og áfram að Bessastöðum. Hlaupið er að hringtorginu við Áftanesveg, þar er farið yfir hringtorgið og áfram inn á Bessastaðaveg. Þegar komið er að Bessastöðum er farið í gegnum hliðið og upp veginn, þar er beygt til hægri fyrir aftan Bessastaðakirkju og tekinn er hringur fyrir framan Bessastaðastofu og aftur út á veginn. 

Þaðan er hlaupið sömu leið til baka Bessastaðaveg, í gegnum hliðið, yfir hringtorgið á Suðurnesveginn. Þar er beygt til hægri inn Breiðamýrina og til baka sömu leið að markinu við sundlaugina.

Skráning fer fram á hlaup.is. Þátttökugjald er 1.500 kr. fyrir 18 ára og eldri og 500 kr. fyrir 17 ára og yngri. 

Öll fá þátttökuverðlaun.

 

Forsetahlaup UMFÍ á Facebook

Skráning í Forsetahlaup UMFÍ fer fram á hlaup.is. Stutt er í að opnað verði fyrir skráningu.

Hér að neðan má sjá kort af hlaupaleiðinni og myndir úr fyrri hlaupum.