Starfsdagur svæðisfulltrúa íþróttahéraða
„Þetta er æðislegur hópur, frábært teymi sem hefur hrist sig saman og vill ganga í takt í splunkunýju verkefni,“ segir Hanna Carla Jóhannsdóttir, verkefnastjóri svæðisstöðva íþróttahéraðanna. Hún og starfsfólkið á öllum svæðisstöðvunum átta fundaði á miðvikudag í fyrsta sinn í raunheimum.
Tengja landið saman
Starfsfólk svæðisstöðvanna er staðsett víða um land. Sem dæmi eru starfsmenn fyrir Vestfirði búsettir á Patreksfirði og Ísafirði, starfsmenn á Suðurlandi búsettir í í Hveragerði og Landeyjum en með sameiginlega skrifstofu á Selfossi. Svo má lengi telja. Bakgrunnur starfsfólksins er fjölbreyttur, sumir koma úr íþróttahreyfingunni, aðrir úr listum og lögreglu, stjórnsýslu og kennslu og svo mál lengi telja.
Starfsdagur
Á miðvikudag fékk hópurinn ítarlega kynningu á mörgum verkefnum íþróttahreyfingarinnar, fræðslu um ÍSÍ og UMFÍ, sérfræðingar Mennta- og barnamálaráðuneytis fjölluðu um farsældarlögin og mörgu sem þeim tengist, hópurinn fékk fræðslu um einstök verkefni og þar á meðal kynningu frá Íþróttasambandi Fatlaðra um verkefnið allir með en það tengist m.a. áherslum í starfi svæðisstöðvanna.
Hópurinn vann svo saman í hópum, skiptist á skoðunum og fóru yfir fyrstu daga í starfinu. Þessa dagana er starfsfólkið að safna gögnum, funda með íþróttahéruðum, sveitarfélögum og fleiri aðilum. Það er liður í gerð aðgerðaráætlunar og þjónustusamninga sem verða útbúin í framhaldi af gagnasöfnuninni og samtali við íþróttahéruðin.
Hópurinn kynntist svo betur í fjölbreyttu hópefli og samveru yfir daginn sem brotinn var upp með léttum áskorunum og leikjum. Deginum lauk á grillveislu með starfsfólki íþróttamiðstöðvarinnar í Laugardal þar sem farið var í pétanque keppni og svo lauk deginum með skemmtilegri píluáskorun þar sem hópnum var blandað saman í mismunandi hópa.
Þessa dagana er unnið að því að ljúka ráðningum á tveimur af síðustu svæðisfulltrúunum en vonast er til þess að seinni fulltrúi á Austurlandi og Norðurlandi vestra liggi fyrir á næstu dögum.
Vinnum þetta saman!
Við upphaf starfsdagsins bauð Hanna Carla alla velkomna og líkti fyrstu starfsdögum hópsins við aðdraganda og upphaf kappleiks:
„Byrjunarliðið er klárt og leikurinn farinn að stað! Þeir leikmenn sem ætla sér að ná árangri á vellinum þurfa að vera góðir liðsfélagar. Góður liðsfélagi áttar sig á því að eigin árangur er háður árangri liðsins sem hann tilheyrir. Góður liðsmaður gerir því allt sem hann getur til að gera liðsfélaga sína eins góða og mögulegt er. Það er mikilvægt fyrir hans eigin árangur. Það er honum líka mikilvægt að liðsfélagar hans vilji taka af skarið, séu fullir eldmóði og beri virðingu fyrir næsta leikmanni. Þess vegna leggur góður liðsmaður mikið upp úr því að liðsfélögum sínum líði sem best og þeir ræði við liðsfélagann en ekki um hann,” sagði Hanna Carla og bætti við að vissulega muni liðsfélagarnir mæta hindrunum á vellinum. Þær reyni á andlegan styrk.
„En við sem lið ætlum ekki að láta ekki draga okkur niður þegar á móti blæs. Við einbeitum okkur aõ því sem við getum stjórnað og hjálpum hvort öðru að vera betri í dag en í gær.”
Samræma aðgerðir
Hlutverk svæðisstöðvanna er að þjónusta íþróttahéruð landsins í nærumhverfi sínu með samræmdum hætti. Horft er til þess að sterkari íþróttahéruð og svæðisstöðvar um allt land auki skilvirkni innan íþróttahreyfingarinnar og geri þeim kleift að takast á við núverandi og fyrirséð verkefni. Styrkja stefnumótandi vinnu og aðgerðir á landsvísu og stuðla þannig að farsæld barna og annarra sem nýta þjónustu hreyfingarinnar.
Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá starfsdeginum.