Starfsmerkið kom Marion mjög á óvart
„Ég var ekkert smá ánægð, þetta kom mér svo á óvart,“ segir Marion Gisela Worthmann, fyrrverandi formaður Héraðssambandsins Hrafna-Flóka (HHF). Hún heiðruð með starfsmerki UMFÍ á ársþingi sambandsins sem fram fór á Tálknafirði í síðustu viku.
Marion hefur verið formaður HHF síðustu misserin og sinnt því með sóma og hefur auk þess tekið virkan þátt í íþróttalífinu á Tálknafirði og átt stóran þátt í því að halda starfinu gangandi. Samhliða því að hafa verið formaður HHF hefur Marion verið formaður Ungmennafélags Tálknafjarðar.
Marion hefur tekið að sér ótal verkefni í tengslum við íþróttalífið í Tálknafirði og með dugnaði og elju leyst þau óaðfinnanlega.
Einar Þorvaldur Eyjólfsson, rekstrarstjóri UMFÍ, sótti þingið og afhenti Marion starfsmerkið.
Einar hélt jafnframt ávarp á þinginu, fór yfir starf og skipulag UMFÍ og áform um eflingu og styrkingu héraðssambanda innan vébanda hreyfingarinnar. Einar sagði frá nýrri skrifstofu félagsins og að það hafi verið mikið heillaskref og auki samstarf við sérsamböndin. Einar sagði líka frá næstu mótum UMFÍ, Landsmóti UMFÍ 50+, Unglingalandsmóti UMFÍ og Drulluhlaupi Krónunnar og Forsetahlaupi UMFÍ, sem fer fram á Patreksfirði laugardaginn 2. september og mun Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, taka þátt í mótinu. Þetta er annað skiptið sem mótið verður haldið en það fyrsta fór fram á Álftanesi í fyrra.
Þótt Marion hafi vel getað hugsað sér að vera áfram formaður HHF þá hefur hún í nægu öðru að snúast og ákvað því að gefa ekki kost á sér áfram. Við formennsku tók Birna Friðbjört Hannesdóttir, frjálsíþróttaþjálfari og skólastjóri Tálknafjarðarskóla. Þær Birna og Marion eru hér saman á myndinni að ofan.
„Ég er tónlistarkennari, íþróttakennari, þjálfa á kvöldin og rek veitingastað auk þess að vera organisti í fimm kirkjum. Síðan er ég að reyna að koma sundi aftur í gang hér í Tálknafirði. Það er soldið mikið að gera,“ segir Marion kát með starfsmerkið. Hún er samt ekki alveg hætt því við smávægilegar breytingar á stjórn HHF fór Marion í varastjórn.