Starfsstöðvar styrki íþróttahreyfinguna
„Kröfur sem gerðar eru til íþróttastarfs eru sífellt meiri. Svo félög nái að mæta þeim skyldum og væntingum sem til þeirra eru gerðar þurfa þau meiri stuðning,“ segir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður Ungmennafélags Íslands.
Rætt var við Jóhann Steinar í Morgunblaðinu í síðustu viku þar sem hann lýsti vel tilgangi og markmiðum starfsstöðvanna átta, sem UMFÍ og ÍSÍ vinna að því að setja á laggirnar um allt land. Auglýst hefur verið eftir sextán starfsmönnum, tveimur á hverri stöð, sem mun hver þjóna 2-4 íþróttahéruðum. Horft er til þess að starfsstöðvarnar nýtist við eflingu og samræmingu íþróttastarfs.
Íþróttahéruð landsins eru 25 talsins.
Innan íþróttahéraða eru héraðssambönd, ungmennasambönd og íþróttabandalög sem íþróttafélög eiga aðild að. Þegar allt er saman lagt verður svo úr þessu öllu víðtækasta fjöldahreyfing landsins.
Í samtali við Morgunblaðið lýsir Jóhann Steinar sýn og væntingum íþróttahreyfingarinnar um samræmdara íþróttastarf um allt land, ekki síst þar sem íþróttahéruðin eru í ójafnri stöðu, mikil starfsemi sé hjá sumum en minni hjá öðrum.
Nýsköpun og lýðheilsa
„Á vettvangi sumra íþróttahéraða er mikil starfsemi en minni í öðrum. Þetta starf viljum við efla og samræma,“ segir Jóhann Steinar. Um verkefni sem yrði sinnt í starfsstöðvum íþróttahreyfingannar má nefna upplýsingagjöf gagnvart opinberum aðilum, fræðslu og kynningarstarf, vinnu í samræmi við farsældarlög barna, aðstoð við félög í erfiðum málum og útdeilingu fjármuna. Einnig lýðheilsuverkefni, aðstoð við nýsköpun og þátttöku í verkefnum, þjálfaramál og svo framvegis.
Auknar kröfur sem hafa komið á íþróttahreyfinguna á undanförnum árum eru fjölbreyttar, segir formaðurinn. Þar megi auk þess sem að framan er greint taka tilfallandi dæmi eins og aukna gagnasöfnun og upplýsingagjöf um starfsemina, reglur um almannaheillafélög, reglur um peningaþvætti og löggjöf um sakavottorð þeirra sem starfa í hreyfingunni.
„Hlutverk starfseininga í íþróttastarfi hefur breyst mikið á sama tíma. Mikilvægt er að hlutverk og skipulag allra starfseininga, íþróttahéraða og félaga, sé í stöðugri skoðun. Í íþróttastefnu ríkisins kemur fram að endurskoða mætti verkefni, fjölda og skipulag íþróttahéraða. Þá er mikilvægt að auka enn frekar samvinnu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Ungmennafélags Íslands til að einfalda, styrkja og samræma verkefni,“ segir Jóhann Steinar.
Hann getur þess að í seinni tíð hafi UMFÍ og ÍSÍ átt með sér gott og náið samstarf, enda verkefnin að einhverju leyti hin sömu. Skrifstofur þessara tvennra samtaka séu nú undir sama þaki í Laugardalnum í Reykjavík. Með því gangi öll vinna greiðar fyrir sig og til þess hafi leikurinn líka verið gerður.
Fá fé á sömu forsendum
Rekstur starfsstöðvanna átta verður fjármagnaður að hluta til með auknum fjármunum frá ríkinu. Að stórum hluta þó með þeim tekjum sem íþróttahreyfingin fær frá Íslenskri getspá, það er Lottóinu.
Hvað varðar skiptingu úr þeim potti þá eru ÍSÍ og UMFÍ tveir af þremur eigendum Íslenskrar getspár.
Til fjölda ára hefur verið deilt um lottóúthlutun og reglugerðir um skiptingu fjármunanna, segir Jóhann.
„Skipting samtakanna á fjármunum hefur verið eftir ólíkum forsendum og með mismunandi hætti eftir aðild að samtökunum. Þar hafa ekki allir fengið úthlutað fjármagn og eins hafa félög af sambærilegri stærð ekki hlotið svipaða úthlutun. Um þetta hefur ekki ríkt sátt og aukin óánægja myndast undanfarin ár. Samhliða samþykkt um svæðastöðvar var úthlutunarreglum breytt svo nú fá allir úthlutað fjármagn og eftir sömu forsendum hjá hvorum tveggja samtökum.“
Stærðarhagkvæmni og betri aðstæður starfsfólks
Við stofnun starfsstöðvanna er lykilatriði segir Jóhann að efla samvinnu. Stuðla að því að hreyfingin gangi í takt. Þá eigi að skapa betri aðstæður fyrir mannauð íþróttahreyfingarinnar og ná upp stærðarhagvæmni varðandi ákveðin verkefni svo stuðningur við einstaka félög, starfsmenn, sjálfboðaliða og iðkendur verði meiri og betri.
„Árangurinn felst í því að gera íþróttahreyfinguna öflugri til lengri tíma og þar er til mikils að vinna. Í samningum við mennta- og barnamálaráðuneytið sem starfað er samkvæmt er kveðið á um inngildingarverkefni er varðar til dæmis fatlað fólk, börn af erlendum uppruna og þau sem koma frá tekjulægri heimilum eða búa við viðkvæmar aðstæður. Íþróttirnar eiga að vera fyrir alla og skilningur á félagslegu mikilvægi þeirra verður alltaf meiri eins og við sem störfum að þessum málum finnum svo vel og víða,“ segir Jóhann Steinar Ingimundarson að síðustu.