Fara á efnissvæði
15. febrúar 2024

Strandarhlaup, brennó og pönnukökubakstur á Landsmóti UMFÍ 50+

Fulltrúar UMFÍ, ungmennafélagsins Þróttar Vogum og sveitarfélagsins Voga skrifuðu í gær undir samning um Landsmót UMFÍ 50+ sem haldið verður í í Vogum í sumar. Boðið verður upp á klassískar greinar, pönnukökubakstur, brennó og margt fleira. Búist er við fjölmennasta mótinu frá upphafi. 

„Við erum búin að ákveða keppnisgreinar og ég get upplýst að keppni í pönnukökubakstri er aftur komin á dagskrá ásamt strandarhlaupi, keppni í félagsvist og brennó á Landsmóti UMFÍ 50+ þegar það verður haldið í Vogum í sumar,“ segir Petra Ruth Rúnarsdóttir, formaður Ungmennafélagsins Þróttar Vogum. Hún er jafnframt formaður framkvæmdanefndar mótsins sem fundaði í íþróttahúsinu í Vogum í gær. Mótið verður haldið dagana 7. – 9. júní.

Landsmót UMFÍ 50+ er blanda af íþróttakeppni og viðburðum fyrir fimmtugt folk og eldra sem allir snúast um að þátttakendur njóti samveru. Mótið er opið öllum sem verða 50 ára á árinu og þeim sem eldri eru. Ekki er krafa um að þátttakendur séu skráðir í íþróttafélag.

 

Tónleikar í heimahúsum

Petra segir fundinn hafa verið afar góðan og skipulag mótsins langt komið. Boðið verður upp á klassískar greinar eins og ringó og golf, boccia, pútt, frjálsar og að sjálfsögðu stígvélakast ásamt mörgum fleirum. Til viðbótar verði kynningar á ýmsum greinum fyrir flesta aldurshópa. Þar á meðal verður spiluð félagsvist og lomber, sem eru vinsæl í Vogum og Grindavík.

„Við verðum líka með strandarhlaup sem var haldið í tengslum við Fjölskyldudaga hér  áður fyrr. Það verður opin og skemmtileg grein sem kemur í stað götuhlaups,“ segir Petra. Hún bendir á að líka sé mikil eftirspurn eftir því að keppa í brennó, sem hópur kvenna æfi í Vogum.

„Við erum að vinna með svo margar hugmyndir og skoðum enn fleiri greinar og viðburði eins og tónleika og uppákomur í heimahúsum í Vogum á meðan mótinu stendur,“ segir Petra og bætir við að allt þetta bætist við skemmtikvöldið sem haldið verður á laugardegi mótsins.  

Í tengslum við fundinn skrifuðu Petra, Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, og Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri sveitarfélagsins Voga, undir samning um mótið. UMFÍ hefur haldið Landsmót UMFÍ 50+ frá árinu 2011 og verður það nú í í samstarfi við Þrótt Vogum og sveitarfélagið Voga.

Bæjarstjórinn Gunnar Axel er afar spenntur fyrir mótinu og býst við mjög góðri aðsókn folks frá Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu.

„Þetta gæti orðið fjölmennasta Landsmót UMFÍ 50+ frá upphafi enda margt í boði. Við munum taka vel á móti öllum,“ sagði hann.

Opnað verður fyrir skráningu á mótið í byrjun maí á umfi.is. Þar eru líka ítarlegari upplýsingar um Landmót UMFÍ 50+.

 

Á myndinni hér að ofan má sjá: Jóhann Steinar Ingimundarson, formann UMFÍ, Petru Ruth, formann Ungmennafélags Þróttar Vogum, og bæjarstjórann Gunnar Axel.

Á myndinni hér að neðan má sjá framkvæmdanefndina fyrir fundinn í gær: Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri móta UMFÍ, Petra Ruth, formaður Þróttar Vogum, Tinna Hallgrímsdóttir, afþreyingastjóri mótsins, keppnisstjórarnir Guðmundur Stefánsson, íþrótta- og tómstundarfulltrúi sveitarfélagsins Voga, og Sólrún Ósk Árnadóttir, gjaldkeri. Þá er á myndinni líka Rósa Sigurjónsdóttir, svæðisstjórann Jóhann Ingimar Hannesson, og Marteinn Ægisson, framkvæmdastjóri Þróttar Vogum sem jafnframt sér um gistingu, veitingar og tjaldbúðir ásamt öryggisstjórn í félagi við Kristin Björgvinsson. Á myndina vantar Helgu Ragnarsdóttur.