Fara á efnissvæði
28. júlí 2022

Strandblak, pílukast og kökuskreytingar vinsælastar á Unglingalandsmóti

„Strandblakið er löngu sprungið og yfir 200 þátttakendur í þessari grein. Þetta er miklu meiri fjöldi en við áttum von á. En við erum samt að bæta við liðum því við viljum að allir geti verið með og tekið þátt. Það er ungmennafélagsandinn í hnotskurn,“ segir Oddur Sigurðarson hjá League Manager, sem heldur utan um greinaskipulagið á Unglingalandsmóti UMFÍ sem fram fer á Selfossi um verslunarmannahelgina. Opið er fyrir skráningu á mótið til hádegis í dag.

 

 

Oddur segir ánægjulegt hversu mikill áhugi sé á strandblaki, en fyrst var keppt í greininni á Unglingalandsmóti UMFÍ á Sauðárkróki árið 2014. Hann sá þar jafnframt um skipulagið.

Fjölmennasta greinin á Unglingalandsmótinu eru kökuskreytingar en yfir 210 þátttakendur eru þar skráðir til leiks í greinina. Ekki er þó útlit fyrir að UMFÍ og Héraðssambandið Skarphéðinn (HSK)  sem er samsstarfsaðili mótsins í Árborg verði uppiskroppa með tertubotna því nóg er til af þeim á Selfossi, að sögn Odds.

Svipaða sögu er líka að segja af pílukasti, sem er gríðarlega vinsæl keppnisgrein á mótinu.

Mótið er allt að smella saman á Selfossi. Tímaseðlar í frjálsum íþróttum liggja fyrir og er hægt að skoða þá hér.

Þar sem skráning er enn í gangi er unnið að niðurröðun í lið í öðrum greinum. Gert er ráð fyrir að allar upplýsingar um liðaskráningar liggi fyrir í kvöld.

 

Mót fyrir alla fjölskylduna!

Aðeins kostar 8.500 krónur fyrir hvern þátttakanda á Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi. Fyrir þátttökugjaldið hefur viðkomandi kost á að skrá sig í margar greinar, aðgangur er að tjaldsvæði fyrir alla fjölskylduna og aðgangur að öllum viðburðum og tónleikum tengdum Unglingalandsmótinu. Öll ungmenni á aldrinum 11 - 18 ára geta skráð sig til leiks. Ekki er skilyrði að vera skráð/ur í ungmenna- eða íþróttafélag.

Sjáumst hress á Unglingalandsmóti UMFÍ á Selfossi!

 

Allar upplýsingar um mótið er á vefsíðunni: www.ulm.is

Við erum líka með viðburðasíðu á Facebook: Smelltu hér og misstu ekki af neinu á Facebook!