Fara á efnissvæði
10. febrúar 2025

Styrkjum fjölgar mikið milli missera

„Nær allir nemendurnir sem sækja um styrki hjá okkur segja dvöl í lýðháskóla hafa verið bestu ákvörðun lífs síns. Þau mæla með því við alla,“ segir Ragnheiður Sigurðardóttir, verkefnastjóri hjá UMFÍ, en hún sér um úthlutun styrkja og samskipti við ungt fólk sem sækir um styrki hjá UMFÍ vegna dvalar í lýðháskólum í Danmörku. 

Umsóknir um styrki hafa sjaldan verið fleiri en nú um stundir. Á yfirstandandi önn fá 40 nemendur af öllu landinu styrki til dvalar í lýðháskóla samanborið við 19 á síðustu haustönn. 

 

Flestir í íþróttalýðháskóla

UMFÍ er með samning við Højskolernes Hus í Kaupmannahöfn um verkefni tengd námsdvöl íslenskra ungmenna á aldrinum 19 til 20 ára í dönskum lýðháskólum. Højskolernes Hus heldur utan um alla lýðháskóla í Danmörku og því er námsframboðið fjölbreytt.

Markmið með styrkveitingunni er að gefa ungu fólki af öllu landinu tækifæri til að víkka sjóndeildarhring sinn. Einnig tækifæri til að kynnast nýju tungumáli og menningu, auka færni sína og þekkingu á völdu sviði í gegnum óformlegt nám og styrkja leiðtogatogahæfileika sína um leið.

Umsóknarfrestir eru tvisvar sinnum á ári. Á haustin er opið fyrir umsóknir fyrir haustönn og heilt skólaár. Um áramót er opið fyrir umsóknir fyrir vorönn. 

Flestir nemenda sem sækja um styrki til UMFÍ eru á leið í íþróttalýðháskóla á borð við íþróttalýðháskólana í Sønderborg, Árósum eða í Álaborg. Margir fara jafnframt í lýðháskólann á Norður-Jótlandi. Margir nemendur fara líka í skóla sem sérhæfa sig í kvikmyndagerð eða listnámi.

Fulltrúar íþróttalýðháskólanna í Sønderborg (Idrætshøjskolen Sønderborg) og á Jótlandi (Nordjyllands Idrætshøjskole) standa fyrir kynningu á starfi skólanna í þjónustumiðstöð UMFÍ tvisvar á ári.

Til að uppfylla kröfur fyrir styrkveitingu þurfa nemendur sem sækja um að skila tveimur verkefnum. Það fyrra er að eigin vali sem lýsir upplifun nemenda / styrkþega af því að vera kominn í lýðháskóla. Nemendur hafa frjálsar hendur um það hvort þeir senda inn texta, lag eða ljóð. Hinu verkefninu er ætlað að endurspegla þann lærdóm sem viðkomandi hefur öðlast af dvölinni í skólanum. 

Styrkur til námsins er greiddur út í lok annar eftir að seinna verkefninu er skilað. Umsóknarfrestur fyrir yfirstandandi önn er liðinn. Opnað verður fyrir umsóknir fyrir skólaárið 2025 - 2026 í ágúst.

 

Í fyrsta skipti að heiman

Ragnheiður segir þau sem hafa farið í lýðháskóla eiga það sameiginlegt að vera með fiðring í maganum í aðdraganda ferðar. 

„Þau eru sum að fara í fyrsta sinn frá foreldrum sínum, þau munu verða sjálfstæðari en áður, þrífa heima, elda og upplifa nýja menningu, læra nýtt tungumál og eignast nýja vini fyrir lífstíð,“ segir hún. 

 

Fleiri upplýsingar

Vefsvæði þriggja lýðháskóla og ýmislegt fleira:

Idrætshøjskolen Sønderborg

Nordjyllands Idrætshøjskole

Vejle Idrætshøjskole

Hlekkir á mun fleiri lýðháskóla er að finna hjá Højskolernes Hus.

Ítarlegri upplýsingar um styrki UMFÍ vegna náms í lýðháskólum:

Lýðháskólastyrkir