Fara á efnissvæði
05. desember 2024

Styrmir hjá Aftureldingu: Gott að gefa af sér

Styrmir Sæmundsson er formaður ungmennafélagsins Aftureldingar á Reykhólum. Styrmir er bóndi, tómstundaleiðbeinandi og varðstjóri í slökkviliði. Þess á milli stundar hann hestamennsku og útihlaup. Hann hefur mikinn áhuga á öllu sem við kemur íþróttum og er drífandi í sjálfboðaliðastarfi.

Sjálfboðaliðar gegna lykilhlutverki í íþróttahreyfingunni hér á landi.

Sjálfboðaliðar vinna óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins. Framlag þeirra er ómetanlegt en því miður oft og tíðum ekki metið að verðleikum. En hvað er það sem knýr sjálfboðaliða áfram að gefa af sér án þess að ætlast til þess að fá neitt í staðinn?

Við tókum á tal harðduglega sjálfboðaliða vítt og breytt um landið og fengum innsýn inn í þeirra starf. Hér fáum við að heyra reynslu þeirra af sjálfboðaliðastarfi og hver hvati þeirra er til að halda áfram að sinna starfi sínu sem sjálfboðaliðar. 

Takk sjálfboðaliðar!

Hvernig sjálfboðaliðastarfi sinnir þú helst? „Oftast þegar ég tek að mér einhver verkefni er það vegna þess að einhver verður að sinna þessu verki og það var eins í þessu en ég sá fljótt að þetta er eitthvað sem gefur mér mikið.“

Hvað er það sem drífur þig áfram sem sjálfboðaliði? „Það eru börnin sem ég starfa með, að sjá þau eflast í því sem þau taka sér fyrir hendur.“

Getur þú lýst eftirminnilegri upplifun sem sjálfboðaliði? „Við fórum með hóp af börnum á okkar fyrsta Íslandsmót í bogfimi innandyra, U16 og komum heim af því móti með þrjá Íslandsmeistara og eitt Íslandsmet! Frábær upplifun og dýrmæt reynsla á mjög faglegu og vel uppsettu móti. Einnig voru þetta fyrstu Íslandsmeistarar í sögu Aftureldingar á 100 ára afmælisári félagsins.“

Hverjar eru áskoranir í starfi sjálfboðaliða? „Ætli það sé ekki blessaður tíminn.“

Hver er ávinningur þess að vera sjálfboðaliði? „Maður kynnist fullt af áhugaverðu fólki og maður er alltaf að læra eitthvað nýtt.“

Þín skilaboð til annarra sem hafa áhuga á að sinna sjálfboðaliðastarfi?

„Endilega að láta vaða, því það er mjög gefandi að láta gott af sér leiða.“

Lumarðu á ráðum til annarra félaga til þess að fjölga sjálfboðaliðum? „Sýnum þakklæti og reynum að hafa stemninguna góða, það eykur líkurnar á að fólk vilji leggja hendur á plóg.“