31. maí 2017
Sundkeppni sveitarfélaga fer vel af stað
Rangárþing ytra situr í efsta sætinu í Sundkeppni sveitarfélaga eftir tvo daga en sveitarfélagið á tvöfaldan titil að verja frá 2015 og 2016. Nágranna sveitarfélagið Rangárþing eystra er komið upp í annað sætið og Snæfellsbær, sem kemur inn nýtt í ár, er í þriðja sætinu sem stendur.
Mikill áhugi er fyrir keppninni víðs vegar um landið. Met þátttaka var t.d. í sveitarfélaginu Garði í gær þar sem aldrei fyrr hafa jafn margir mætt í sund og synt á einum degi. Keppnisskapið er svo að vakna hjá íbúum Grundarfjarðar þar sem íbúar syntu töluvert lengra í gær en á mánudaginn.
Samanlagt hafa um 1.450 einstaklingar nú synt samanlagt um 1.090km sem gerir að meðaltali um 750m á hvern þátttakanda. Vel gert!
Sundkeppni sveitarfélaga er enn liður í Hreyfiviku UMFÍ sem fram fer dagana 29. maí - 4. júní. 34 sundlaugar taka þátt frá 30 sveitarfélögum sem er svipuð þátttaka og í fyrra.
Á myndinni má sjá stöðuna eins og hún lítur út eftir tvo daga.