Svæðisstöðvar eru stærsta verkefnið
Stærsta verkefni íþróttahreyfingarinnar framundan felst í því að halda áfram að virkja svæðisstöðvar íþróttahéraðanna og nýta tækifærin sem þau bjóða upp á, að sögn Jóhanns Steinars Ingimundarsonar, formanns UMFÍ.
Hann hélt ávarp á sambandsráðsfundi UMFÍ sem fram fór í Borgarfirði á laugardag, fór yfir helstu verkefni UMFÍ og fjallaði meðal annars um stuðning ríkisins við íþrótta- og ungmennafélagshreyfinguna.
Um fimmtíu fulltrúar sambandsaðila UMFÍ sátu sambandsfundinn, sem fram fór á Hótel Varmalandi.
Daginn fyrir fundinn mætti jafnframt starfsfólk svæðisstöðvanna átta og hittu þau fulltrúa UMFÍ og ÍSÍ auk þess sem Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, ræddi við starfshópinn.
Svæðisstöðvarnar eru um allt land og eru tvö stöðugildi á hverju stað. Tilgangurinn er að þær styðji íþróttahéruðin, efli íþróttastarf á landsvísu með þjónustu við íþróttahéruð og félög með samræmdum hætti, nýtt betur mannauð og vinna að því að auka þátttöku barna og ungmenna í íþróttastarfi með sérstaka áherslu á þátttöku fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum og barna af erlendum uppruna. Með þessu fyrirkomulagi er horft til þess að ná megi markmiðum sem stjórnvöld hafa sett með lögum um farsæld barna, íþróttalögum, íþróttastefnu ríkisins og byggðaáætlun.
Á sambandsráðsfundinum voru Ásmundi Einari færðar þakkir fyrir skjót viðbrögð og stuðning við svæðisstöðvarnar, sem eru samstarfsverkefni ÍSÍ og UMFÍ, auk stofnun hvatasjóðs til þess að styrkja enn frekar áherslur verkefnisins.