Fara á efnissvæði
20. mars 2024

Sveinbjörg er nýr formaður USVH

Sveinbjörg Rut Pétursdóttir tók við sem nýr formaður Ungmennsambands Vestur-Húnvetninga (USVH) á héraðsþingi sambandsins í gær. Hún tekur við af Guðrúnu Helgu Magnúsdóttur, sem setið hefur í formannsstólnum síðastliðin fjögur ár. 

Örlitlar breytingar urðu á stjórn USVH en Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir tók við sem meðstjórnandi af Elísu Ýr Sverrisdóttur. 

Kjör á varamönnum til eins árs var óbreytt á milli ára en Pálmi Geir Ríkharðsson, Valdimar Gunnlaugsson og Reimar Marteinsson sitja áfram sem varamenn. 

Á þinginu var Agnars Levýs minnst en hann lést nýverið. Agnar var um árabil í ritnefnd Húna, sem USVH gefur út á hverju vori. 

Ekki voru gerðar lagabreytingar á þinginu en lögð fram breytingartillaga ásamt nýrri tillögu um nefndarstörf. Báðar voru þær samþykktar. 

Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, var gestur þingsins og flutti hún ávarp. Þar ræddi Auður um að lærdómurinn af COVID felist í samstarfi og samvinnu, tímamótunum sem felast í stofnun átta svæðastöðva sem verið er að setja á laggirnar og minnti á störfin sextán sem hafa verið auglýst á svæðastöðvunum. 

Viðar Sigurjónsson var fulltrúi ÍSÍ á þinginu.

Auður ræddi jafnframt um Fræðslu- og verkefnasjóð UMFÍ, úthlutun lottós, nýja sambandsaðila UMFÍ og umsóknir frá Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar (ÍRB) og Íþróttabandalags Suðurnesja (ÍS) að UMFÍ og ýmis verkefni eins og Skólabúðirnar á Reykjum í Hrútafirði, Unglingalandsmót UMFÍ, Landsmót UMFÍ 50+, Drulluhlaup Krónunnar og Forsetahlaup UMFÍ, sem haldið verður 9. maí næstkomandi. 

 

Þinggerð USVH 2024