Tapaði fyrir bróður sínum í fyrsta sinn
„Jón bróðir ætlaði ekki að tapa fyrir mér, lagði hart að sér í sprettinum og vann. En síðan fékk hann krampa í fótinn, tognaði eða reif vöðva og gat ekki keppt meira við mig,“ segir Pétur Ingi Frantzson í Hveragerði. Hann er 62 ára hlaupagarpur sem á fjöldamörg mót að baki og var þar að auki sérgreinarstjóri í utanvegahlaupum og þríþraut á Landsmóti UMFÍ 50+ sem fram fór í Hveragerði um síðustu helgi. Bróðir hans, Jón Þórir Frantzson er ekki síðri hlaupagarpur. Hann er 56 ára og framkvæmdastjóri Íslenska gámafélagsins.
Pétur segir þá bræður hafa keppt sín á milli síðan í barnæsku ánægjunnar vegna, síðast í Laugavegsmaraþoni árið 2014. Þá voru þeir hnífjafnir í mark. Aldrei fyrr höfðu þeir keppt á Landsmóti UMFÍ 50+ fyrr en nú.
Pétur segir glaðhlakkalegur Jón bróður sinn hafa verið efnilegan spretthlaupara á sínum yngri árum. En það sé langt síðan. „Þetta er reyndar farið að verða erfiðara fyrir mig núna en áður. Það er líka einhver gorgeir í Jóni því hann er í Ólafsfirði og taldi sig ekki þurfa að æfa neitt fyrir mótið nú fyrr en hann kom heim á föstudag, nánast beint í hlaupið.“
Pétur hafði aldrei tapað fyrir Jóni í hlaupagreinum og skoraði hann á Jón bróður sinn í keppni í 100m og 800m hlaupi á mótinu á laugardag. Keppnin byrjaði með 100m hlaupi. Jón spretti úr spori og hafði betur. Vegna meiðsla gat hann hins vegar ekki keppt við bróður sinn í 800m hlaupi.
„Þetta var gaman og meiðslin ekki alvarleg. Hann jafnar sig á 2-3 vikum og þá getum við keppt aftur,“ segir Pétur kankvís. Því má þó bæta við að þótt Jón hafi hafi aldrei unnið eldri bróður sinn í hlaupum þá er hann slungnari í skák og þar hefur Pétur ætíð mætt ofjarli sínum.
Á myndinni hér að ofan er Pétur lengst til vinstri en Jón í miðjunni að skjótast fram úr.
Myndir frá Landsmóti UMFÍ 50+ í Hveragerði má sjá á myndasíðu mótsins. Myndunum er raðað niður eftir dögum.