Fara á efnissvæði
18. nóvember 2024

Tengslin efld á haustfundi UMSK

„Við erum að greina svæðin og meta þarfir okkar íþróttahéraða,“ sagði Íris Svavarsdóttir, annar tveggja starfsmanna svæðisstöðva íþróttahéraðanna, á haustfundi Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK), sem fram fór í síðustu viku. Fundurinn var vel sóttur en sæti á honum eiga formenn og formenn aðildarfélaga UMSK. Markmið hans er að miðla upplýsingum en gefa jafnframt forsvarsfólki aðildarfélaganna tækifæri til að efla og bæta tengslin og eiga í skoðanaskiptum um ýmis mál sem varða þau. 

Dagskráin var gagnleg og lýsandi fyrir markmiðið. Þau Íris og Sveinn Sampsted, sem eru svæðisfulltrúar íþróttahéraðanna á höfuðborgarsvæðinu, lýstu vinnu sinni og áformum. Svæðisstöðvarnar voru settar á laggirnar í sumar, þær eru átta og með tvo starfsmenn á hverjum stað. Þau Íris og Sveinn sögðu mikla samvinnu á milli íþróttahéraða. Næstu skref felist í að móta tillögur að aðgerðum, sem byggja á þörfum á hverjum stað. 

Starfsfólk svæðastöðva á fleiri stöðum víða um land hefur jafnframt verið gestir á viðburðum sambandsaðila UMFÍ, haustfundum og formannafundum og afmælum aðildarfélaga og greint frá starfi sínu.

En fleira gagnlegt var á dagskránni á haustfundi UMSK. Á eftir þeim Írisi og Sveini flutti Pétur Rúnar Heimisson afar upplýsandi erindi um markaðsmál íþróttafélaga, Vésteinn Hafsteinsson fjallaði um Afreksmiðstöð Íslands og Kristján Hafþórsson, stjórnandi Já-kastsins, ræddi um jákvæðni, hugrekki og valdeflingu í samskiptum.