Fara á efnissvæði
01. ágúst 2022

Þáttttakendur frá Vestur-Skaftafellssýslu hlutu Fyrirmyndarbikarinn

Ungmennasamband Vestur-Skaftafellssýslu (USVS) hlaut Fyrirmyndarbikarinnar eftirsótta við slit Unglingalandsmóts UMFÍ sem fram fór á Selfossi um verslunarmannahelgina. Gríðarlegur fögnuður braust út hjá félögum USVS þegar Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, tilkynnti hver hlyti bikarinn.

Bikarinn er alltaf afhentur þeim gestum mótsins úr röðum sambandsaðila UMFÍ sem sýna prúðmennsku og eru til fyrirmyndar í einu og öllu á mótinu. Sérstaklega margir þátttakendur voru frá USVS á mótinu og klæddir vel merktum treyjum svo ekki var hjá því komist hvaðan þeir voru.

Um þúsund þátttakendur á aldrinum 11-18 ára voru á mótinu með fjölskyldum sínum og því á bilinu 4-5000 manns á mótinu yfir helgina. Mótsgestir voru til fyrirmyndar og urðu engin vandkvæði. Veðurblíðan lék við mótsgesti og ansi gott veður alla verslunarmannahelgina fyrir utan einstaka andvara sem rétt dugði til að kæla keppendur í hita leiksins.

Hljóp á milli keppnisstaða

Unglingalandsmóti UMFÍ á Selfossi var slitið um miðnætti í gærkvöldi. Keppni lauk í gær og voru síðustu keppnirnar æsispennandi í kökuskreytingum og skák. Kökuskreytingar voru ein vinsælasta greinin en um 250 þátttakendur voru skráðir til leiks. Mjög algengt var að þátttakendur væru skráðir í fleiri en eina grein.

Ingi Rafn William Davíðsson frá Keflavík lenti einmitt í því undir lok dags. Málið leysti hann með því að hlaupa á milli keppnissvæði og skreyta kökuna sína á milli leikja í skák. Kakan leit vel út en skilaði honum ekki vinningi. Hann vann hins vegar tvær skákir og skemmti sér konunglega.

 

Tónleikar og mótsslit

Kvöldið endaði með tónleikum í samkomutjaldinu á tjaldsvæðinu. Að þeim loknum gengu mótsgestir fylktu liði á eftir gamalli dráttarvél að Selfossvelli þar sem mótinu var slitið með formlegum hætti.

Á Selfossvelli þakkaði Þórir Haraldsson, formaður framkvæmdanefndar Unglingalandsmótsins, þátttakendum fyrir komuna og frábæra helgi. Þórir er fulltrúi Héraðssambandsins Skarphéðins (HSK) sem hélt mótið ásamt Sveitarfélaginu Árborg.

 

 

Að því loknu ávarpaði Jóhann Steinar mótsgesti. Landsmótseldurinn, sem hafði logað alla verslunarmannahelgina, var slökktur. Að því loknu dró Gunnar Þór Gestsson, formaður Ungmennasambands Skagafjarðar, Hvítbláan, fána UMFÍ niður. Gunnar Þór geymir fánann næsta árið en Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Sauðárkróki á næsta ári.   

 

 

Við vonum að sem flestir hafi skemmt sér á Unglingalandsmóti UMFÍ. Takk fyrir helgina og sjáumst á mótinu á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina 2023!

Hér má sjá fleiri myndir frá gærdeginum, svo sem í kökuskreytingarkeppni, keppni í taekwondo, í hæfileikakeppni og á tónleikunum í samkomutjaldinu.