Fara á efnissvæði
26. júlí 2019

„Þau ætla að massa þetta!“

„Margir þátttakendur í kökuskreytingakeppninni leggja sig alla fram, koma með eigin matarlit og hafa skorið út úr sykurmassa. Það má koma með ýmislegt í keppnina, eigið skraut og fleira,“ segir Þórdís Þórsdóttir, sérgreinastjóri í kökuskreytingum á Unglingalandsmóti UMFÍ, sem haldið verður á Höfn í Hornafirði um verslunarmannahelgina.

Keppni í kökuskreytingum var ein af nýju greinunum sem boðið var upp á í fyrsta sinn  á Unglingalandsmótinu á Egilsstöðum árið 2017. Greinin sló í gegn og fjölmenntu metnaðarfullir þátttakendur á aldrinum 11-18 ára í keppnina. Aftur var keppt í kökuskreytingum í Þorlákshöfn í fyrra og nú um verslunarmannahelgina á Höfn.

Skráning á Unglingalandsmót UMFÍ á Höfn er í fullum gangi og er hægt að skrá þátttakendur til leiks fram að miðnætti 29. júlí, það er fram á mánudagskvöld.

 

 

Þátttakendur leggja margir ekki aðeins metnað í kökuskreytingarnar heldur mæta líka margir í flottum búningum.

Þemað í kökuskreytingakeppninni í ár er í samræmi við Hornafjörð en keppendur eiga að vinna með jökla.

„Þau ætla að massa þetta og allt lagt í flotta skreytingu,“ segir Þórdís sérgreinastjóri. „Þátttakendur fá tvo kökubotna hjá okkur en hafa verið að kanna hvort þau megi koma með aukabotn til að hækka kökurnar. Ég er að skoða það því ég tek undir með þeim að sumar kökur líta betur út þegar þær eru hærri.“

 

Þórdís er sjálf reynslubolti í kökuskreytingum og kenndi heimilisfræði í grunnskólanum á Höfn. „Ég baka mínar kökur sjálf og hef ástríðu fyrir því að skreyta kökur. Ég hef gerð þær margar og eru ánægðust með Barbie-kökur, sem eru líka erfiðustu kökurnar sem ég hef gert,“ segir hún.

 

Skráning og allar nánari upplýsingar um Unglingalandsmót UMFÍ á Höfn er að finna á slóðinni: 

Svo er líka Facebook-síða mótsins