Þegar Pelé las Skinfaxa
Pelé, einn af þekktustu knattspyrnumönnum heims, lést í gær 82 ára að aldri. Hann varð þrisvar heimsmeistari með liði sínu, mikill markaskorari og var ötull boðberi íþróttarinnar. Pelé kom til Íslands 11. ágúst árið 1991 í tengslum við útgáfu á ævisögu hans sem þá var væntanleg.
Blaðamaðurinn og knattspyrnusérfræðingurinn Víðir Sigurðsson skrifaði bókina, sem kom út fyrir jólin 1991. Pelé stoppaði stutt og fór af landi brott snemma morguns þremur dögum síðar. Þeir Pelé og Víðir nýttu tímann vel, fóru í hraðferð um landið með Ásgeiri Sigurvinssyni og hittu knattspyrnuáhugafólk á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi, Akureyri, Egilsstöðum og í Vestmannaeyjum.
Pelé afhenti verðlaun á Norðurlandamóti drengjalandsliða í Eyjum, vígði knattspyrnuvöll á Egilsstöðum, fékk afhentan bæjarlykil á Akranesi og afhenti verðlaun KSÍ ásamt mörgu öðru.
Pelé reddað á Akureyri
Nefnd tók á móti Pelé og lögfræðingi hans á Keflavíkurflugvelli. Þar beið hópsins lítil flugvél sem flaug með hann beint til Akureyrar. En vesen með ferðatöskur fer greinilega ekki í manngreinarálit. Í Keflavík kom nefnilega í ljós að ferðatöskur Pelés og lögfræðings hans höfðu orðið eftir í Brasilíu.
Þá voru nú góð ráð dýr.
Akureyringar brugðust hratt við. Þegar komið var á Hótel KEA var búið að útvega allar helstu nauðsynjar fyrir töskulausa ferðalanga. Þar á meðal voru náttföt, náttsloppur, rakáhöld og annað nauðsynlegt fyrir ferðalag um landið. Þar á meðal hljóta að hafa verið spariföt því tekið er fram í frásögninni á öðrum stað að önnur föt hafi passað betur.
Nokkurs konar blaðamannafundur var haldinn á Akureyrarvelli þar sem krakkar voru uppi í stúkunni en Pelé niðri á hlaupabrautinni. Krakkarnir fengu að leggja fyrir hann spurninga, sem voru túlkaðar fyrir Pelé og svör hans voru síðan túlkuð til krakkana.
Hann sagði að bestu minningarnar væru frá heimsmeistarakeppninni í Svíþjóð 1958 þegar hann varð heimsmeistari 17 ára gamall með Brasilíu. Mestu vonbrigðin sagði hann hinsvegar vera þegar Brasilía féll útúr heimsmeistarakeppninni í Englandi árið 1966.
Í bókinni segir að á Akureyri hafi Pelé brugðið sér inn í verslun. Þar hafi myndast öngþveiti því afgreiðslufólk vildi fá myndir af sér með honum.
Taktu 'ann!
Næst var farið til Egilsstaða. Strax á flugvellinum ætluðu svo augun úr ítölskum ferðamönnum sem þar voru þegar þeir gerðu sér grein fyrir því að Pelé var á vellinum.
Á Egilsstöðum vígði Pelé nýjan grasvöll knattspyrnudeildar Hattar. Í bók Víðis segir að Hermann Níelsson, formaður deildarinnar, hafi fylgst forviða með snillingnum:
„Pelé og Ásgeir Sigurvinsson tóku miðju, og síðan dansaði Pelé upp völlinn með boltannn og skoraði með pottþéttu skoti frá vítateig í bláhornið. Ég hef aldrei séð aðra eins líkamsbeitingu við markskot, það var hrein list. Þó þarna væri fimmtugur maður á ferð, fór ekki á milli mála að um hreinan snilling var að ræða,“ sagði Hermann.
Á móti Pele var stillt upp ungum markverði, þá trúlega 7-8 ára, strák. Sagan er að faðir hans hafi æpt á hann: „Takt'ann!‟
Því næst var haldið út til Eyja. Þar afhenti Pelé enska drengjalandsliðinu verðlaun fyrir að hafa sigrað svokallað Norðurlandamót sem haldið var þar.
Hádegismatur með Ríkharði
Pelé fór síðan í þyrlu frá Reykjavík til Akraness og snæddi þar hádegisverð með ýmsum gömlum kempum, svo sem knattspyrnuhetjunni og Skagamanninum Ríkharði Jónssyni, sem þá var 62 ár. Pelé fékk að gjöf handprjónaða ullapeysu sem gömul kona á Akranesi prjónaði, eins og segir í bók Víðis.
Þyrlan skilaði Pelé aftur til Reykjavíkur og lenti á Hótel Loftleiðum. Þar var haldinn enn einn blaðamannafundurinn.
Tekið er fram í bók Víðis að lögfræðingu Pelé hafi nýtt tímann í annað. Hann hafi nefnilega skotist í fataverslun til að kaupa ný betriföt á þá félaga í stað þeirra sem aldrei komu og pössuðu betur en lánsfötin.
Í Reykjavík heilsaði Pelé upp á krakka á Laugardalsvelli og snæddi hátíðarkvöldverð á Grillinu á Hótel Sögu með stjórn KSÍ, Davíð Oddssyni forsætisráðherra og fleirum.
Una María Óskarsdóttir, þá ritstjóri Skinfaxa, tímarits UMFÍ, og meðlimur í Samtökum íþróttafréttamanna, hitti Pelé í Reykjavík. Una segir frá því sjálf á Facebook-síðu sinni að í stað þess að setjast með honum á mynd hafi hún rétt honum eintak af Skinfaxa og smellti síðan af honum mynd.
Í þessu tölublaði mátti finna umfjöllun um umhverfismál, hvað börn borða í keppnisferðum og baráttu kvenna í knattspyrnu. Óvíst er hins vegar hvort Pelé hafi skilið eitthvað af innihaldi blaðsins og því lukka að allar myndir í Skinfaxa segja meira en þúsund orð.
Um morguninn 14. ágúst flaug Pelé svo áfram til Sviss þar sem hann fylgdist með heimsmeistaramóti unglinga og gat áreiðanlega nýtt sparifötin sem lögfræðingur hans keypti í Reykjavík.
Athugasemd: Í upphaflegri umfjöllun sagði að Pelé hafi lesið Skinfaxa á Egilsstöðum. Una María Óskarsdóttir, þá ritstjóri Skinfaxa, leiðrétti það með skemmtilegri frásögn og hefur frásögn UMFÍ verið breytt í samræmi við það.