Þórunn og Jóhanna sæmdar gullmerki HSV
Þær Þórunn Pálsdóttir og Jóhanna Oddsdóttir frá Skíðafélagi Ísfirðinga voru sæmdar gullmerki félagsins á héraðsþingi HSV í gær. Þær hafa báðar lagt mikið af mörkum til félagsins. Þórunn séð um málefni skíðaskálans í Tungudal og aflað honum tekna. Jóhanna hefur meðal annars stýrt stærsta kaffiboði landsins í Fossavatnsgöngunni.
Silfurmerki hlaut Leifi Bremnes, sem hefur varið nær öllum frítíma sínum í uppbyggingu aðstöðu Skotíþróttafélags Ísafjarðarbæjar.
Á þinginu var tíðrætt hversu illa gekk að manna stjórnir og nefndir HSV. Til stóð að kjósa nýjan formann til eins árs, tvo stjórnarmenn til tveggja ára og þrjá varamenn til eins árs. Uppstillinganefnd hafði hins vegar ekki verið skipuð. Það var gert á þinginu og ákveðið að fresta kosningum um hálfan mánuði.
Á þinginu var engu að síður samþykkt ansi harðorð ályktun eftir lítilsháttar orðalagsbreytingar í umfjöllun allsherjarnefndar. Fundarstjórinn Sigurður Hreinsson, mælti fyrir ályktuninni og þurfti að hafa stólaskipti til að geta farið úr skóm fundarstjóra.
Ályktunina sagði hann setta fram vegna afstöðuleysis yfirstjórnar íþróttamála á Íslandi gagnvart þjóðarmorði á Palestínumönnum. Afstöðuleysið, að hans sögn, væri í mótsögn við harða afstöðu gegn hernaði Rússa í Úkraínu.
Hér að neðan má sjá mynd af því þegar Sigurður lagði fram ályktunina.