Þrír sækja um að halda Landsmót UMFÍ 50+ sumarið 2024
Þrír sambandsaðilar UMFÍ sóttu um að halda Landsmót UMFÍ 50+ árið 2024. Þetta eru Héraðssambandið Skarphéðinn (HSK), Ungmennafélagið Þróttur Vogum og Ungmennasamband Austur-Húnvetninga (USAH).
Landsmót UMFÍ 50+ var fyrst haldið á Hvammstanga árið 2011.
Landsmót UMFÍ 50+ er opið öllum þátttakendum sem verða 50 ára á árinu og alla eldri. Einstaka sinnum er opið í einstaka greinar fyrir þátttakendur á öllum aldri. Ekki er krafa um að þátttakendur eru skráðir í ungmenna- eða íþróttafélag til að taka þátt í mótinu.
HSK hefur einu sinni áður haldið mótið en það var í Hveragerði árið 2017 og var myndin hér að neðan tekin á því móti. Það hefur jafnframt einu sinni verið haldið á Blönduósi, sem er innan sambandssvæðis USAH.
Mótið hefur ekki áður verið haldið á sambandssvæði Þróttar Vogum. Þetta er í annað sinn sem stjórn félagsins sækir um að halda mótið. Það gerði hún síðast þegar sótt var um að halda það árið 2022. Um það leyti átti mótið upphaflega að vera í Borgarnesi árið 2020. Því var hins vegar frestað í tvígang af völdum COVID-faraldursins og fór ekki fram fyrr en í Borgarnesi um Jónsmessuna í fyrra.
Næst í Stykkishólmi
Næsta Landsmót 50+ verður haldið í Stykkishólmi dagana 23. – 25. júní 2023 í samstarfi við Héraðssamband Snæfellsness og Hnappadalssýslu og sveitarfélagið Stykkishólm.
Í Stykkishólmi verður keppt í 17 íþróttagreinum. Þær er: Badminton, boccia, borðtennis, bridds, frisbígolf, frjálsar íþróttir, golf, götuhlaup, hjólreiðar, körfubolti, pílukast, pútt, ringó, skák, stígvélakast og sund.
Jafnframt verður þátttakendum og gestum og gangandi boðið að prófa ýmsar aðrar greinar, sem ekki verður keppt í.
Mótsgjald
Þátttökugjald er aðeins 5.500 kr.og innifalið í því er þátttaka í öllum keppnisgreinum mótsins.
Mótssvæði
Mótið fer fram á tiltölulega litlu svæði sem er í hjarta Stykkishólms. Íþróttavöllur, golfvöllur, sundlaug og íþróttahús eru í göngufæri. Íþróttamannvirkin eru í góðu ástandi og bjóða upp á ýmsa skemmtilega möguleika.
Meiri upplýsingar verða á upplýsingasíðu mótsins: