Fara á efnissvæði
21. október 2023

Þrjú hlutu Hvatningarverðlaun UMFÍ

Hvatningarverðlaun UMFÍ voru veitt vegna sjálfboðaliða Tindastóls, verkefna Þróttar sem nær til nýrra markhópa og Special Olympics hjá Haukum. Ungmennasamband Skagafjarðar, Íþróttabandalag Reykjavíkur og Íþróttabandalag Hafnarfjarðar hljóta viðurkenningarnar. 

Thelma Knútsdóttir tók við viðurkenningunni fyrir hönd Ungmennasambands Skagafjarðar (UMSS), Ingvar Sverrisson fyrir hönd Íþróttabandalags Reykjavíkur og Hrafnkell Marinósson fyrir hönd Íþróttabandalags Hafnarfjarðar.

Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, afhenti Hvatningarverðlaunin.

 

Hvatningarverðlaun til UMSS 
Sjálfboðaliðar Tindastóls vöktu mikla athygli á leikjum körfuknattleiksliðs meistaraflokks félagsins sem átti hvern stórleikinn á fætur öðrum undir stjórn nýs þjálfara. Sjálfboðaliðar félagsins voru mjög sýnilegir og bjuggu til skemmtilega umgjörð fyrir stuðningsfólk félagsins.  
 
Sjálfboðaliðar Tindastóls voru til fyrirmyndar og er mikilvægt að vekja athygli á því.  
 
 
Hvatningarverðlaun til ÍBR 
 
Hugmyndaauðgi er lykillinn að framtíð íþróttastarfs. Þetta sést vel á starfi knattspyrnufélagsins Þróttar. Þar er í boði mikið framboð íþróttagreina, sem ná til breiðs hóps iðkenda. Eftirtektarverð eru verkefni Þróttara með öllum aldurshópum, barnungum knattspyrnukrökkum, fólki af erlendu bergi brotið og verkefni fyrir nýja íbúa hér á Íslandi, blakhópa á öllum aldri, verkefni fyrir iðkendur í eldri kantinum og þá sem fram til þessa hafa horft fram hjá skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi en hafa fundið sig í rafíþróttum hjá Þrótti.  
 
Þróttur var fyrsta félagið á landinu til að bjóða upp á æfingar í göngufótbolta fyrir þau sem hætt eru hefðbundnum fótbolta og þeim sem eiga erfitt með hlaup. Á hefur félagið einnig verið með sérstakan æfingahóp fyrir flóttafólk og sérstakt old boys verkefni sem stuðlar einnig að þátttöku sjálfboðaliða hjá félaginu. 
 
Þróttarar eru til fyrirmyndar og hvetjum við félagsmenn til góðra verka og velgengni.  

 

Hvatningarverðlaun til ÍBH
 
Haukar í Hafnarfirði hafa vakið athygli víða á ungum iðkendum í körfubolta í hópi Special Olympics. Verkefnið byrjaði afar smátt og fámennt fyrir iðkendur með sérstakar þarfir hjá Haukum. Það hefur sprungið út síðan þá og verið til fyrirmyndar.  
 
Haukar hafa með framúrskarandi hætti fundið lausnir og leiðir til að tryggja að iðkendur fái tækifæri á mótum og viðburðum félagsins. Haukarnir sýna með verkefninu að íþróttir eru fyrir alla og alltaf hægt að finna leiðir svo sem flestir geti stundað þær íþróttagreinar sem fólk hefur áhuga á.  
 
Við hjá UMFÍ hvetjum Hauka áfram til góðra verka og velgengni verkefnisins. Verðlaunin eru veitt Haukum fyrir að setja á fót og fylgja eftir starfi körfuknattleiksdeildar Hauka – Special Olympics.