Fara á efnissvæði
25. nóvember 2023

Þróttarar spenntir fyrir Landsmóti UMFÍ 50+

„Við erum búin að stefna rosalega lengi að því að halda þetta mót og ætlum að gera það vel enda fólk orðið spennt fyrir því,“ segir Petra Ruth Rúnarsdóttir, formaður Ungmennafélags Þróttar í Vogum á Vatnsleysuströnd. Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið þar dagana 7. - 9. júní 2024. 

Landsmót UMFÍ 50+ er mót sem haldið hefur verið árlega fyrir fólk yfir miðjum aldri frá árinu 2011. Það er blanda af íþróttakeppni og skemmtun fyrir þátttakendur. 

Mótið er opið öllum þátttakendum sem verða 50 ára á árinu og upp úr. Einstaka sinnum er opið í einstaka greinar fyrir þátttakendur á öllum aldri. Engin krafa er um að þátttakendur séu skráðir í ungmenna- eða íþróttafélag og miðað að því að allir geti verið með.

Kynna nýja grein í hverjum mánuði

Þetta verður í fyrsta sinn sem Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið í Vogum og verður það í samstarfi við UMFÍ og sveitarfélagið Voga. Petra Ruth segir Þróttara í Vogum líta á það sem frábært tækifæri til að vekja athygli á lýðheilsu og möguleikunum til íþróttaiðkunar í sveitarfélaginu. 

Þess vegna séu bæjarbúar afar spenntir fyrir mótinu. Spennan nái út fyrir sveitarfélagið og áhugafólk um ýmsar greinar farið að hafa samband til að bjóða upp á kynningar á allskonar greinunum og koma með hugmyndir. Margir séu líka strax farnir að spyrja hvort keppt verði í pönnukökubakstri. 

„Þetta var eitt af markmiðum mínum þegar ég tók við formennsku í Þrótti árið 2019 að halda Landsmót UMFÍ 50+,“ segir Petra og bætir við að nú þegar sé búið að ræða við forsvarsfólk allra félaga í Vogum, upplýsa bæjarbúa um mótið og stefnt að því að keyra í gagn mikla stemningu fyrir því. Á meðal þess verður að bjóða öllum bæjarbúum í ringó og boccía og allskonar fleiri greinar með skipulögðum hætti í hverri viku eftir áramótin. Hver grein fái sinn mánuð.

Petra segir Voga frábæra fyrir mót eins og þetta. „Við erum með gott íþróttahús sem er með sama aðgengi í sundlaug og sambyggt félagsmiðstöðinni. Svo er tjaldsvæðið við hliðina og stutt í alla þjónustu,“ segir hún og bætir við að stefnt sé á að dagskrá mótsins verði klár í mars. 

 

Allar upplýsingar um Landsmót UMFÍ 50+ verða hér þegar nær dregur

Smelltu hér til að fylgjast með