Þú getur spilað strandblak við ömmu þína
„Mér finnst samsetning Landsmótsins mjög spennandi og skemmtileg. Ef þú ert rosa góður í fótbolta getur þú keppt í honum, en þú getur líka komið og fengið kennslu ef þú vilt prófa eitthvað sem þú hefur ekki fengið tækifæri til að prófa áður,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ.
Rætt er við Auði í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins í dag um Landsmótið sem haldið verður á Sauðárkróki dagana 12. – 15. júlí.
Auður segir það heilla sig við Landsmótið að þar geti fólk mætt til leiks með hverjum sem er. „Þú gætir mætt og spilað strandblak með ömmu þinni, og mér þykir það vera mesti sjarminn við mótið,“ segir hún.
Spurð um nýjungar á mótinu segir hún: „Það geta allir sem eru 18 ára á árinu og eldri tekið þátt á landsmótinu. Það þarf ekki að vera á vegum íþrótta- eða ungmennafélags heldur geta allir verið með og tilvalið að setja saman skemmtilegan hóp og mæta til leiks. Landsmótið hefur verið haldið frá 1909 og á sér því langa og mikla sögu. Þetta mót er mjög breytt frá fyrri mótum, með aukna áherslu á þátttöku og fjölbreyttar keppnisgreinar. Auk þess er metnaðarfull skemmtidagskrá þar sem allir í fjölskyldunni ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.“
8 mínútna fótboltaleikir
Á Landsmótinu er boðið upp á rúmlega 30 íþróttagreinar. Auður segir greinarnar stuttar og skemmtilegar svo hægt sé að taka þátt í fleiri greinum.
„Dæmi um það er fótbolti þar sem hver leikur er 8 mínútur. Við erum með íþróttagreinar, til dæmis biathalon, sem er blanda af hlaupum og skotfimi, brennó er á dagskránni og svo krolf, sem er blanda af krikket og golfi. Þá verður street-körfubolti í fyrsta skipti ásamt strandhandbolta og strandfótbolta. Við leggjum áherslu á lýðheilsu, skemmtun og samveru. Það verður hægt að taka þátt í mörgum greinum og blanda saman, þannig að þú átt að geta sett saman þína eigin dagskrá.“
Hér má sjá myndir af nokkrum þeirra greina sem boðið er upp á Landsmótinu. En þetta er bara smá brot...
Þú finnur meiri upplýsingar um Landsmótið og getur skráð þig á www.landsmotid.is